Skoðun

Stjórnar­tíðindi 150 ára

Svavar Kjarrval skrifar

Stjórnartíðindi er ein lengstútgefna ritröðin gefin út hér á landi sem enn kemur út á hverju ári. Þó það kunni að hljóma skringilega er búist við að almenningur viti hvað stendur í Stjórnartíðindum, en í raun má ætla að fæstir Íslendingar hafi í raun flett upp í ritinu. Líkur eru þó að fleiri Íslendingar kannist við lagasafnið sem Alþingi hýsir á vef sínum og geta þar flett upp þágildandi lögum hverju sinni með innfelldum breytingum. Sambærilegur vefur er fyrir reglugerðir, reglugerd.is. Það er hins vegar birtingin í Stjórnartíðindum sem ræður gildi laga, en ekki birtingin í svona samantektum.

Í dag eru nú liðin 150 ár frá fyrsta útgáfudegi Stjórnartíðinda, sem þá hétu Stjórnartíðindi fyrir Ísland, þann 19. ágúst 1874 en þá kom út fyrsta tölublað B-deildar ritsins er hófst á auglýsingu titlaðri „Bréf dómsmálastjórnarinnar (til landshöfðingjans yfir Íslandi)“. Þann 26. september sama ár var gefið út fyrsta tölublað A-deildar er hófst á auglýsingu titlaðri „Auglýsing um að stofnað skuli stjórnarráð fyrir Ísland og hvernig skipta skuli niður störfum þeim, sem hin íslenzka stjórnardeild, er hingað til hefir verið, hefir haft á hendi“. Fyrrnefnda auglýsingin kvað á um fyrirkomulag Stjórnartíðindanna en hin síðarnefnda um stofnun sérstaks stjórnarráðs fyrir Ísland.

Tilgangurinn hefur verið nokkuð ljós frá upphafi: Að færa formlegar fréttir af því sem er að gerast við stjórnun landsins. Er það gert m.a. með birtingu laga og reglugerða í formi auglýsinga. Á þessum 150 árum hafa verið birtar yfir 84 þúsund tölusettar auglýsingar á yfir 256 þúsund blaðsíðum. Einnig hafa verið birtar ýmsar ótölusettar auglýsingar, svo sem auglýsingar um laus embætti, veitta styrki og einkaréttindi, en sumar þeirra eru nú birtar á öðrum vettvangi.

Til að almenningur geti vitað hvað má og hvað ekki, verður hann að geta kynnt sér þær reglur sem gilda hverju sinni. Áður en farið var að birta lög skipulega voru þau oft alls ekki birt og gátu yfirvöld því refsað þegnum sínum fyrir að brjóta gegn lögum sem almenningur hreinlega vissi ekki af. Það ástand gat líka boðið upp á misnotkun yfirvalda þar sem þau voru í aðstöðu til að beita geðþótta enda óvissa meðal almennings um nákvæmlega hvaða lög giltu hverju sinni.

Í aðdraganda upphafs Stjórnartíðinda voru lög lesin upp á tilteknum stöðum og urðu bindandi fyrir íbúana á því svæði. Það gat leitt til aðstæðna þar sem önnur lög giltu á einu svæði en á nærliggjandi svæðum. Ég tel að það ástand hafi leitt til þess að ákveðið var að gefa út eitt rit og að birtingin þar myndi duga, til að forðast það ástand. Það var svo 1. ágúst 1878 sem birtingin í Stjórnartíðindum varð bindandi og upplesturinn valkvæður.

Stjórnartíðindunum var skipt í nokkrar deildir og auglýsingar flokkaðar eftir tegund þeirra. B-deildin var og er enn umfangsmesta deildin. Þumalputtareglan í upphafi virðist hafa verið sú að allt sem kom frá æðsta hluta ríkisins, aðallega konungi, var birt í A-deild ritsins á meðan B-deildin hýsti það sem kom frá staðaryfirvöldum hér á landi, svo sem landshöfðingjanum. Þegar Ísland öðlaðist sjálfstæði 1944 virðist þumalputtareglan hafa haldið sér að nokkru leyti, að breyttu breytanda. Efnisáherslurnar hafa samt tekið mestri þróun í B-deild þar sem í upphafi var nokkuð um birtingu bréfa á milli stjórnvalda um úrlausn ýmissa álitaefna svo og fyrirmæli og aðrar auglýsingar frá stjórnvöldum sem og einkaaðilum.

Internetið hafði talsverð áhrif við komu þess. Meðal áhrifa þess var að gera stjórnvöldum betur kleift að koma á framfæri upplýsingum til almennings, þar á meðal miðla efni Stjórnartíðinda með sneggri og ódýrari hætti en áður. Frá því að ritinu var dreift á milli landshluta með póstskipum þar sem fólk gat ýmist keypt áskrift að ritinu eða keypt einstaka tölublöð af embættismönnum, varð til leið fyrir fólk til að komast í þær upplýsingar án endurgjalds á netinu. Sú varð raunin árið 2005 þegar útgáfan á stjornartidindi.is varð sú sem varð bindandi í stað útgáfunnar á prenti. Síðar var skipulegri prentútgáfu hætt.

Í aðdraganda þessa afmælis hefur verið farið í stórt verkefni við að skanna inn Stjórnartíðindin sem gefin voru út á prenti og setja á netið. Núna er hægt að niðurhala þeim án endurgjalds á urlausnir.is. Verkefnið hefði ekki gengið svo vel ef ekki hefði verið fyrir dómsmálaráðuneytið og annarra sem hafa veitt því liðsinni með einum eða öðrum hætti. Því miður tókst ekki að ljúka öllu verkinu fyrir afmælið en gott að fagna því sem komið er.

Skönnunarverkefnið opnaði hins vegar einnig fyrir þann möguleika að taka saman ýmis áhugaverð gögn um það sem hefur verið birt. Búið er að setja inn ýmsar upplýsingar um auglýsingarnar í gagnagrunn sem gerðu mér kleift við þetta tilefni að koma með ýmsar fræðilegar staðreyndir. Til að mynda að vinsælasti dagurinn til undirritunar auglýsingar sem birtist í A-deild er föstudagur með nær 3000 auglýsingar en hinn óvinsælasti er sunnudagur með 210. Í B-deild er dreifingin jafnari yfir virku dagana en samt voru 252 auglýsingar undirritaðar á sunnudegi. Í C-deild, þar sem aðallega eru birtir samningar við erlend ríki, er föstudagur algengasti dagurinn en hin vegar er laugardagurinn óvinsælasti dagurinn.

Þá er einnig áhugavert að athuga með einstaka almanaksdaga en í A-deild er 31. desember á toppnum en engin auglýsing var undirrituð 25. né 26. desember. Í B-deild er hins vegar 21. desember vinsælastur undirritunardaga en 25. desember óvinsælastir með engri undirritun en áhugavert að geta að 26. desember hafði eina undirritun á deiliskipulagsbreytingu árið 2004. Í C-deild er 31. desember langvinsælastur en alltof fáar auglýsingar í heildina til að telja upp óvinsælustu dagana.

Stjórnartíðindi geta veitt ýmsa gagnlega innsýn í ríka sögu Íslands, þar á meðal þróun samfélagsins yfir árin, og mun gera það áfram um ókomna tíð. Birting laga og annarra reglna er svo samofið lýðræðishugmyndum að óhjákvæmilegt er að álykta að ritið mun vera gefið út svo lengi sem lýðveldi ríkir hér á landi, hvort sem það er undir heitinu Stjórnartíðindi eður ei. Ég tel að tímabil Stjórnartíðinda sé bara rétt svo að hefjast í stóra samhenginu. Hvert er þitt álit? Hvernig telur þú að lög og aðrar reglur verði birtar þegar 300 ára afmæli Stjórnartíðinda ber að?

Höfundur er laganemi og tölvunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×