Innlent

Óvenjumörg út­köll vegna vatnsleka á höfuð­borgar­svæðinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Erfitt er að segja til um hvort lekarnir tengist yfirstandandi viðgerðum Veitna á suðuræð.
Erfitt er að segja til um hvort lekarnir tengist yfirstandandi viðgerðum Veitna á suðuræð. Vísir/Vilhelm

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur farið í óvenjulega mörg útköll í kvöld vegna vatnsleka. Það vekur athygli að allir lekarnir nema eitt hafi verið í þeim hverfum höfuðborgarsvæðisins þar sem skrúfað hefur verið fyrir heita vatnið vegna vinnu Veitna við tengingu á Suðuræð 2.

Samkvæmt vakthafanda hjá slökkviliðinu tengdust útköllin flest ofnakerfum en erfitt er að segja til um hvort lekana megi reka til aukins þrýstings á kerfin vegna mikillar kyndingar í aðdraganda viðgerðanna eða einhvers annars.

Þó segir hann að það þyki óvenjulegt að slökkviliðið þurfi að sinna útköllum vegna fjögurra ofnaleka á mismunandi stöðum á svo skömmum tíma.

Fyrsta útkallið barst um kvöldmatarleytið en skrúfað var fyrir heitt vatn klukkan tíu í nótt í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Norðlingaholti, Breiðholti og Álftanesi. Heitavatnsleysið mun standa yfir í þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×