Innlent

Skemmdi rúður í lög­reglu­bílum dag eftir dag

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Fjölmargir lögreglubílar urðu fyrir skemmdum.
Fjölmargir lögreglubílar urðu fyrir skemmdum. vísir/vilhelm

Kona hefur verið dæmd fyrir héraðsdómi í skilorðsbundið 14 mánaða fangelsi fyrir eignaspjöll. Fólust þau í því að brjóta ítrekað rúður lögreglubíla með neyðarhamri í sumar. Konan hótaði einnig lögreglumanni með skilaboðum á rúðuþurrku.

Í dómi héraðsdóms Reykjaness eru talin upp níu mismunandi rúðubrot, bæði þar sem konan sjálf brýtur bílstjóra- eða farþegarúðu, eða liðsinnir öðrum „í orði og verki“ eins og það er orðað. 

Þann 11. júní síðastliðinn var konan handtekin fyrir sambærilegan verknað. Þegar hún var færð í fangaklefa í lögreglustöðinni í Reykjanesbæ sparkaði hún í vinstra læri lögreglumanns sem hlaut eymsli af. Þá hafði hún í vörslum sínum á heimili sínu úðavopn sem lögregla lagði hald á. Fyrir þetta var hún sömuleiðis dæmd fyrir brot gegn valdstjórninni. 

„Hættu að klína shitti á mig tík!“

Konan er einnig dæmd fyrir að hafa hótað lögreglumanni ofbeldi með því að skilja eftir miða undir rúðuþurrku einkabifreiðar lögreglumanns.  „Hættu að klína shitti á mig tík! Ert bara að biðja um vesen,“ skrifaði konan. 

Fleiri umferðarlaga- og lögreglubrot eru talin upp í dómi héraðsdóms, þar sem konan meðal neitar ítrekað að fara eftir fyrirmælum lögreglu eða umferðarreglum. 

Ákærða játaði fyrir  dómi og hún því talin hafa gerst sek um fyrrgreinda háttsemi. Var hún dæmd í fjórtán mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem henni er gert að greiða 2,3 milljónir í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×