Körfubolti

Frá­bærir þrír leikhlutar ekki nóg á móti Bretum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar í sextán ára landsliðinu fyrir leikinn í dag.
Stelpurnar í sextán ára landsliðinu fyrir leikinn í dag. FIBA.basketball

Íslenska sextán ára landslið kvenna í körfubolta kemst ekki í átta liða úrslitin á Evrópumóti b-deildar en það var ljóst eftir að stelpurnar hentu frá sér sigrinum í dag.

Íslensku stelpurnar töpuðu þá með sextán stiga mun á móti Bretum, 66-82, í lokaleik riðlakeppninnar. Íslenska liðið varð að vinna til að komast í átta liða úrslitin.

Útlitið var mjög bjart um tíma í leiknum því íslenska liðið náði mest sextán stiga forystu en leikur liðsins hrundi síðan algjörlega í fjórða leikhlutanum. 32 stiga sveifla varð á endanum í þessum leik.

Íslenska liðið var þrettán stigum yfir, 59-46, fyrir lokaleikhlutann eftir að hafa unnið þriðja leikhlutann 19-11.

Bretarnir byrjuðu lokaleikhlutann vel og minnkuðu muninn strax niður í tvö stig, 62-60, með 14-3 spretti. Þær voru síðan búnar að jafna metin þegar leikhlutinn var hálfnaður.

Bretarnir voru komnir í gang og unnu leikhlutann á endanum með 29 stigum, 36-7, og þar með leikinn 82-66.

Íslenska liðið tapaði 30 boltum í leiknum og Bretarnir tóku 25 sóknarfráköst. Það er erfitt að vinna leik með slíka tölfræði.

KR-ingurinn Rebekka Rut Steingrímsdóttir var atkvæðamest hjá íslenska liðinu.FIBA.basketball

KR-ingurinn Rebekka Rut Steingrímsdóttir var með 18 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar en Grindvíkingurinn Þórey Tea Þorleifsdóttir skoraði 15 stig. Njarðvíkingurinn Kristín Björk Guðjónsdóttir skoraði ellefu stig.

Haukakonan Inga Lea Ingadóttir skoraði 7 stig og tók 10 fráköst á 19 mínútum en íslenska liðið vann með fimmtán stigum með hana inn á vellinum.

Það munaði auðvitað mikið um það að bakvörðurinn efnilegi, Hulda María Agnarsdóttir úr Njarðvík, gat ekki spilað leikinn vegna meiðsla.

Íslenska liðið spilar því um 9. til 16. sæti á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×