Innlent

SA og ASÍ hnýta í Seðla­bankann

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þau hvetja einnig sveitarfélög til að tryggja framboð af lóðum í takt við eftirspurn.
Þau hvetja einnig sveitarfélög til að tryggja framboð af lóðum í takt við eftirspurn. Vísir/Samsett

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hvetja Seðlabankann til að vera framsýnan í ákvörðunum sínum varðandi stýrivexti. Háir raunvextir séu íþyngjandi fyrir skuldsett heimili og dragi úr þrótti á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að mikilvægum árangri hafi verið náð í að ná niður verðbólgunni og háu vaxtastigi en að allir aðilar vinnumarkaðarins þurfi áfram að leggjast á eitt til að markmiðum kjarasamninganna sem gerðir voru fyrr á árinu.

„Um þessar mundir eru augljós merki í atvinnulífinu um að hagkerfið sé að kólna og útlit er fyrir að hagvöxtur verði undir 1% á árinu. Háir raunvextir eru íþyngjandi fyrir skuldsett heimili, standa fjárfestingu í framtíðar verðmætasköpun fyrir þrifum og draga úr þrótti á íslenskum hlutabréfamarkaði. Það er því mikilvægt að Seðlabankinn sé framsýnn í sínum ákvörðunum þegar kemur að ákvörðun um stýrivexti,“ segir í yfirlýsingunni.

Fram kemur að ársverðbólga fyrir ári hafi mælst 7,7% og án húsnæðisliðarins 7,6% en að í síðustu mælingu Hagstofunnar hafi ársverðbólgan mælst 6,3% og 4,2% án húsnæðisliðarins.

Þá segir einnig að lögð sé áhersla á mikilvægi þess að sveitarfélög tryggi nægt framboð af fjölbreyttum og hagkvæmum lóðum, svo tryggt verði að framboð á húsnæðismarkaði sé í takt við eftirspurn. Jafnvægi á húsnæðismarkaði sé forsenda efnahagslegs stöðugleika.

„Mikið átak þurfti til að tryggja fjögurra ára kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í því augnamiði að stuðla að stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og heimili. Í ljósi þess að loforð yfirvalda um aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru hluti forsenduákvæða samninganna leggja samningsaðilar áherslu á að staðið sé við gefin loforð,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×