Innherji

Harður tónn ­bankans sem segir kraft í inn­lendri eftir­spurn kalla á „var­kárni“

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Í nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni ganga hægar niður á næstu misserum en áður var talið.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Í nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni ganga hægar niður á næstu misserum en áður var talið. Vísir/Arnar

Þrátt fyrir að hægt hafi á innlendri eftirspurn síðasta árið samhliða hækkandi raunvöxtum þá er enn spenna í þjóðarbúinu og hún lítið minnkað frá því á vormánuðum, að sögn peningastefnunefndar Seðlabankans, sem heldur vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent sjötta fundinn í röð. Útlit er fyrir að það muni taka „nokkurn tíma“ að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgunnar en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans hafa hagvaxtarhorfur þessa árs samt verið lækkaðar um meira en helming.

Ákvörðun peningastefnunefndar, sem var í samræmi við væntingar nánast allra greinenda, markaðsaðila og hagfræðinga, kemur í kjölfar þess að tólf mánaða verðbólgan hækkaði skarpt í liðnum mánuði úr 5,8 prósentum í 6,3 prósent – og mælist því hærri um þessar mundir en þegar nefndin kom síðasta saman snemma í maí.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er jafnframt vísað til þess að undirliggjandi verðbólga sé enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt. Verðbólguvæntingar hafa sömuleiðis lítið breyst og haldist yfir 2,5 prósenta markmiði.

Í vaxtakönnun Innherja, sem var framkvæmd dagana 15. til 17. ágúst, gerðu 17 þátttakendur gerðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum í 9,25 prósent, en það var sömuleiðis spá greiningardeilda allra viðskiptabankanna. Aðeins einn þátttakandi í könnun Innherja reiknaði með því að vextir yrðu lækkaðir, eða um heila 50 punkta.

Flestir þátttakendur töldu ljóst, einkum eftir þá yfirlýsingu nefndarinnar í maímánuði um að taumhaldið væri þá líklega orðið nægjanlegt, að undirliggjandi verðbólga og/eða verðbólguvæntingar þyrftu að lækka svo hún gæti rökstutt að hægt væri að hefja vaxtalækkunarferlið. Það hafi aftur á móti ekki orðið reyndin á milli funda.

Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni.

Peningastefnunefndin segir jafnframt í yfirlýsingu sinni í morgun að hægt hafi á innlendri eftirspurn undanfarið ár í takt við aukið peningalegt taumhald. Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum, hafa hagvaxtarhorfur versnað. Í ár er reiknað með einungis 0,5 prósenta hagvexti en í maí var spáð 1,1 prósenta vexti. Skýrist frávikið fyrst og fremst af lakari horfum í ferðaþjónustu. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa einnig versnað lítillega frá því í maí.

Nefndin heldur áfram og undirstrikar að nokkur spenna sé samt til staðar í þjóðarbúinu og lítið hafi dregið úr henni frá maífundinum.

„Horfur eru því á að það geti tekið nokkurn tíma að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgu,“ útskýrir peningastefnunefnd í nokkuð hörðum tón, og bætir við: „Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni.“

Nefndin telur því með öðrum orðum að raunvaxtastig upp á liðlega fjögur prósent, eins og það mælist í dag, eigi að duga til að ná niður verðbólgunni. Mótun peningastefnunnar muni síðan sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga, að sögn peningastefnunefndar.

Í uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans er ráðgert að verðbólgan verði 5,8 prósent á síðasta fjórðungi ársins, en fyrri spá hljóðaði upp á 5,3 prósent. Hún muni síðan lækka í um 4,4 prósent að meðaltali á öðrum fjórðungi næsta árs, en áður var talið að hún yrði 3,9 prósent á þeim tíma.

Margir þátttakaendur í könnun Innherja vísuðu til verðbólguvæntinga sem ástæðu þess að Seðlabankanum væri erfit að fara í vaxtalækkun á næstunni.

Í könnun sem Seðlabankinn framkvæmdi meðal markaðsaðila fyrr í þessum mánuði voru verðbólguvæntingar þeirra til tveggja og fimm ára óbreyttar milli kannana í 4 prósent og 3,8 prósent. Langtímaverðbólguvængingarnar hækkuðu hins vegar lítillega og markaðsaðilar reikna nú með að verðbólgan verði um 3,6 prósent að meðaltali á næstu tíu árum.

Þá hefur sömuleiðis orðið skörp hækkun á framvirka fimm ára verðbólguálaginu eftir fimm ár, mælikvarði sem peningastefnunefndin horfir talsvert til varðandi trúverðugleika 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðsins, en það er upp um liðlega 65 punkta frá síðustu vaxtaákvörðun. „Það eru afar slæm skilaboð fyrir nefndina um akkeri verðbólguvæntingar,“ sagði einn skuldabréfamiðlari í könnun Innherja.


Tengdar fréttir

Bú­ist við end­ur­tekn­u efni við á­kvörð­un stýr­i­vaxt­a

Útilokað er að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þyki forsvaranlegt að lækka stýrivexti næstkomandi miðvikudag. Verðbólga hefur hækkað um þrjár kommur frá síðustu vaxtaákvörðun. Aðalhagfræðingur Kviku banka vekur athygli á að hægt hefur á hjöðnun undirliggjandi verðbólgu og verðbólguvæntingar hafa lítið breyst frá síðustu stýrivaxtaákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×