Ritstjóri

Hörður Ægisson

Hörður er ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja.

Nýjustu greinar eftir höfund

Grænar fjár­festingar eins stærsta líf­eyris­sjóðsins undir tveimur milljörðum í fyrra

Stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem skrifuðu allir undir viljayfirlýsingu gagnvart alþjóðlegum samtökum seint á árinu 2021 um að auka verulega við umhverfissjálfbærar fjárfestingar sínar út þennan áratug, hefur gengið heldur hægt að bæta við nýfjárfestingar sjóðanna í slíkum verkefnum. Lífeyrissjóðurinn Birta, sem ætlar að þrefalda vægi grænna fjárfestinga í eignasafninu fyrir árslok 2030, fjárfesti fyrir minna en tvo milljarða í fyrra í verðbréfum sem uppfylla skilyrði samkomulagsins.

Til­nefningar­nefndir ættu að eiga í opnara sam­tali við stærstu hlut­hafa fé­laga

Lífeyrissjóðurinn Gildi, stór fjárfestir í mörgum félögum í Kauphöllinni, kallar eftir því að tilnefningarnarnefndir eigi í „opnara samtali“ við hluthafa sína, einkum þá stærstu þannig að þeir öðlist betri innsýn í vinnu nefndanna þegar verið er að leggja til samsetningu stjórnar. Þá segist Gildi ætla að beita sér fyrir því að skráð félög horfi til fjölbreyttari flóru en aðeins kauprétta þegar verið er að koma á langtímahvatakerfum fyrir stjórnendur skráðra félaga.

Tekjurnar af Stelara féllu um þriðjung með inn­komu líftækni­lyfja í Evrópu

Framleiðandi frumlyfsins Stelara, eitt mesta selda lyf í heimi, sá sölutekjur sínar skreppa saman um tugi prósenta utan Bandaríkjanna í lok ársins 2024 þegar keppinautar á borð við Alvotech komu inn á markaðinn í Evrópu með líftæknilyfjahliðstæður. Eftir mestu er hins vegar að slægjast á Bandaríkjamarkaði sem opnaðist í byrjun ársins fyrir hliðstæður við Stelara en hversu stóran bita þeim tekst að fá af kökunni mun meðal annars ráðast af verðstefnu Johnson & Johnson þegar nýir leikendur mæta á sviðið.

Markaðurinn nálgast jafn­vægi eftir langt tíma­bil þar sem öll fé­lög voru van­metin

Eftir langt tímabil þar sem flest félög í Kauphöllinni voru undirverðlögð, ásamt því að vera mun ódýrari í samanburði við verðkennitölur erlendis, þá virðist íslenski hlutabréfamarkaðurinn núna vera að komast í jafnvægi eftir hraustlegar verðhækkanir flestra félaga síðustu mánuði, að sögn hlutabréfagreinanda. Það eru hins vegar blikur samhliða hratt versnandi samkeppnishæfni landsins sem gæti einkum bitnað á mannaflsfrekum greinum sem eru í erlendri samkeppni.

Setja á fót fimm milljarða fram­taks­sjóð sem fjár­festir í Bret­landi

Kvika eignastýring hefur klárað fjármögnun á nýjum framtakssjóði, sem ber heitið Harpa Capital Partners II, en tekið var við áskriftum fyrir jafnvirði meira en fimm milljarða íslenskra króna. Sjóðsfélagar samanstanda af stórum hópi innlendra og breskra fjárfesta en Harpa mun fjárfesta einungis í fyrirtækjum í Bretlandi þar sem Kvika er með starfsemi.

Arctic Thera­peutics sækir fjóra milljarða frá inn­lendum og er­lendum fjár­festum

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics hefur klárað jafnvirði um fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu frá breiðum hópi innlendra og erlendra fjárfesta, meðal annars fjárfestingafélagi Samherja-fjölskyldunnar og norrænu rannsóknarsamsteypunni Sanos Group. Fjármögnunin mun tryggja að félagið geti hafið klínískar rannsóknir á lyfjum við heilabilun og húðbólgusjúkdómum.

Hátt raun­gengi að nálgast „þol­mörk“ og spá því að krónan muni gefa eftir

Þrátt fyrir miklar sveiflur í hagkerfinu síðustu misseri og ár hefur krónan haldist „ótrúlega stöðug“ en eftir talsverða hækkun á raungenginu er það komið á þann stað vera ekki sjálfbært við núverandi aðstæður, einkum fyrir samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, og margt sem bendir til að gengi krónunnar muni veikjast á árinu, að mati hagfræðinga Arion. Ólíklegt er að fjárfestar auki við framvirka stöðu sína með krónunni, samkvæmt greiningu bankans, sem endurspeglar meðal annars auknar áhyggjur af stöðu ferðaþjónustunnar og óvissu hver áhrifin verða af boðuðum komu- og auðlindagjöldum.

Fer hörðum orðum um kjara­samninga og segir nálgun SA hafa beðið „skip­brot“

Nálgun Samtaka atvinnulífsins í síðustu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, með áherslu á krónutöluhækkanir fyrir þá sem eru á taxtalaunum og valdið launahækkunum langt umfram svigrúm margra fyrirtækja, hefur beðið „skipbrot“ að mati framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en hún er jafnframt stjórnarmaður í SA og var áður í framkvæmdastjórn samtakanna. Vegna þessarar nálgunar „datt henni ekki í hug“ að samþykkja svonefndan stöðugleikasamning á liðnu ári á vettvangi SA og telur að með sama áframhaldi muni það leiða til þess að atvinnugreinarnar „fari í sundur“ og sjái um það sjálfar að semja við stéttarfélögin.

Spá meiri arð­semi Arion en minni vaxta­tekjur taki niður af­komu Ís­lands­banka

Útlit er fyrir afkomubata á milli ára á fjórða ársfjórðungi 2024 hjá Arion, drifið áfram af sterkum grunnrekstri, enda þótt ólíklegt sé að það muni duga til að bankinn nái þrettán prósenta arðsemismarkmiði sínu fyrir árið í heild, ef marka má spár greinenda. Þrátt fyrir væntingar um talsvert minni niðurfærslu á eignum þá er reiknað með því að afkoma Íslandsbanka dragist saman, einkum vegna samdráttar í hreinum vaxtatekjum.

Út­lit fyrir ó­breyttan verðbólgu­takt í að­draganda næstu vaxtaákvörðunar

Fæstir hagfræðingar eiga von á því að verðbólgan muni hjaðna milli mánaða þegar mælingin fyrir janúar verður birt eftir tvær vikur, nokkrum dögum áður en peningastefnunefnd kemur saman, en miðað við meðalspá sex greinenda er útlit fyrir að tólf mánaða takturinn haldist óbreyttur annan mánuðinn í röð. Gangi bráðabirgðaspár eftir ætti verðbólgan hins vegar að taka nokkra dýfu í framhaldinu og vera komin undir fjögurra prósenta vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans strax í marsmánuði.

Sjá meira