Ritstjóri

Hörður Ægisson

Hörður er ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja.

Nýjustu greinar eftir höfund

Fossar juku hluta­féð um 600 milljónir eftir hækkun á eigin­fjárkröfu bankans

Hlutafé Fossa var hækkað í tveimur áföngum með skömmu millibili undir lok síðasta árs að fjárhæð samtals sex hundruð milljónir en aukningin, sem er sögð til að styðja við áframhaldandi vöxt, var meðal annars gerð til uppfylla nýja lágmarks eiginfjárkröfu af hálfu fjármálaeftirlitsins. Efnahagsreikningur Fossa nærri tvöfaldaðist að stærð á liðnu ári á meðan hreinar rekstrartekjur jukust um sextíu prósent en fjárfestingabankinn skilaði hins vegar lítillegu tapi fyrir skatt.

Sam­runi TM og Lands­bankans mun „klár­lega hafa á­hrif“ á tekju­vöxt VÍS

Núna þegar samruni Landsbankans, stærsti banki landsins, og TM er að ganga í gegn þá er ljóst að þær breytingar á markaðinum munu „klárlega“ hafa áhrif fyrir tekjuvöxtinn í tryggingastarfsemi Skaga, að sögn forstjórans, en dótturfélaginu VÍS tókst að stækka markaðshlutdeild sína á liðnu ári samhliða miklum iðgjaldavexti. Hann telur jafnframt nánast fullvíst að Skaga verði alltaf „boðin þátttaka í samtali“ sem miðar að „stórum eða smáum hreyfingum“ í átt að frekari hagræðingu og samþjöpun á íslenskum fjármálamarkaði.

Ó­vænt gengis­styrking þegar líf­eyris­sjóðir fóru að draga úr gjald­eyris­kaupum

Snörp gengisstyrking krónunnar að undanförnu, einkum gagnvart Bandaríkjadal, hefur komið sérfræðingum nokkuð á óvart og skýrist meðal annars af því að lífeyrissjóðir hafa haldið að sér höndum í kaupum á gjaldeyri. Á meðan sú staða helst óbreytt er sennilegt að krónan verði áfram undir þrýstingi til styrkingar, að mati gjaldeyrismiðlara, þrátt fyrir að hún verði að teljast vera á háum gildum um þessar mundir miðað við flesta mælikvarða.

Yfir 200 milljarða inn­lána­hengja gæti leitað á eigna­markað með lægri vöxtum

Frá því að raunstýrivextir urðu að nýju jákvæðir fyrir tveimur árum hafa innlán heimilanna aukist um 460 milljarða, mun meira en mætti vænta miðað við leitni vaxtar í hlutfalli við landsframleiðslu, og stóra spurningin er hvert „innlánahengjan“ leitar þegar vextir fara lækkandi, að sögn aðalhagfræðings Kviku. Hann telur sennilegt að áhrifin sjáist fyrst á eignamörkuðum með auknum hvata eignameiri fólks til að ráðstafa lausu fé í áhættusamari fjárfestingar en þegar fram í sækir gæti þessi mikli „umfram“ sparnaður takmarkað svigrúm Seðlabankans til lækkunar á raunvaxtaaðhaldinu.

Arð­greiðslur frá stórum ríkis­félögum um tíu milljörðum yfir á­ætlun fjár­laga

Hlutdeild ríkissjóðs í boðuðum arðgreiðslum stærstu ríkisfyrirtækjanna, einkum Landsbankans og Landsvirkjunar, verður nærri tíu milljörðum króna meiri á þessu ári heldur en hafði verið áætlað í fjárlögum sem voru samþykkt í nóvember í fyrra. Arðgreiðslurnar minnka hins vegar lítillega að umfangi á milli ára en þar munar mestu um minni hagnað hjá Landsvirkjun eftir að hafa skilað metafkomu á árinu 2023.

Bankar og VÍS keyptu megin­þorra bréfa vogunar­sjóðsins Taconic í SKEL

Það voru einkum nokkrir bankar fyrir hönd viðskiptavina sinna, ásamt tryggingafélaginu VÍS, sem stóðu að kaupum í SKEL þegar erlendi vogunarsjóðurinn Taconic Capital losaði um allan eignarhlut sinn í fjárfestingafélaginu fyrr í þessum mánuði fyrir nærri tvo milljarða króna.

Eignir í stýringu Stefnis jukust um meira en þriðjung á sveiflu­kenndu ári

Hagnaður sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, dótturfélag Arion banka, stóð nánast í stað í fyrra en á sama tíma jukust hins vegar eignir í stýringu um samtals tæplega níutíu milljarða króna, meðal annars vegar stofnunar stórra nýrra sjóða og jákvæðrar ávöxtunar á ári sem var „heilt yfir gott“ á mörkuðum. Félagið nefnir að sparnaður heimilanna, sem er einkum á innlánsreikningum, sé verulega hár um þessar mundir og með væntingum um frekari vaxtalækkanir er líklegt að þeir fjármuni leiti í áhættusamari fjárfestingarkosti.

Vænta þess að hagnast ár­lega um nærri hálfan milljarð af leigu á þremur vélum

Með nýju samkomulagi um leigu á þremur vélum úr flota sínum fram til ársins 2027 hafa stjórnendur Play væntingar um að það muni skila sér í árlegum hagnaði fyrir flugfélagið upp á liðlega eina milljón Bandaríkjadala fyrir hverja vél. Hlutabréfaverð Play hefur fallið um nærri þrjátíu prósent eftir að félagið kynnti uppgjör sitt í byrjun vikunnar en fjárfestar telja víst að þörf sé á auknu hlutafé fyrr en síðar.

Fram­taks­sjóðurinn IS Haf festir kaup á meiri­hluta í sænsku tækni­fyrir­tæki

Sérhæfður fjárfestingarsjóður í haftengdri starfsemi hefur náð samkomulagi um að kaupa meirihluta í sænska félaginu NP Innovation, tæknifyrirtæki með vatnsgæðalausnir fyrir landeldi og velti yfir tveimur milljörðum í fyrra, en þetta er önnur erlenda fjárfesting sjóðsins á innan við ári. Með innkomu IS Haf-sjóðsins sem kjölfestufjárfestir í NP Innovation er ætlunin að hraða enn frekari vexti félagsins á komandi árum.

„Vekur at­hygli“ að Arion hafi ekki fært upp virði verð­mætra þróunar­eigna

Stærsti einkafjárfestirinn í Arion segir að væntingar sínar hafi staðið til þess að bankinn myndi endurmeta virði eignarhluta bankans í verðmætum þróunareignum, sem eru Blikastaðalandið og Arnarlandið, en „einhverra hluta vegna“ hafi stjórnendur ekki gert það þótt framgangur þeirra verkefna undanfarin misseri sé augljós. Þá segist forstjóri Stoða, sem situr í stjórn Bláa lónsins, að ef ytri þættir verði hagfelldir í rekstrarumhverfi ferðaþjónustufélagsins þá verði mögulega hægt að ráðast í skráningu í Kauphöllina á næsta ári.

Sjá meira