Viðskipti innlent

Al­var­leg van­skil aukist tölu­vert

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Brynja segir þróunina vera merki um mögulega vanda í framtíðinni.
Brynja segir þróunina vera merki um mögulega vanda í framtíðinni. Vísir/Samsett

Brynja Baldursdóttir, forstjóri Motus, segir að þrátt fyrir að lítið beri á greiðsluvanda vegna fasteignalána bendi gögn félagsins til þess að alvarleg vanskil séu að aukast töluvert. Það sem verra sé fari þau lengra inn í innheimtuferlið og verði alvarlegri.

Á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í dag sagði Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri að lítil merki sæjust um greiðsluvandræði á fasteignalánum. Töluverðar hækkanir hafi átt sér stað á fasteignaveðri sem hafi bætt eigin fé heimilanna samhliða launahækkunum.

„Það er líka mjög mikilvægt að geta beitt peningastefnunni af hörku eins og við höfum verið að gera án þess að það komi heimilum í vandræði, eða það hefur allavega ekki gerst núna,“ sagði hann þegar hann gerði grein fyrir þeirri ákvörðun nefndarinnar að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25 prósentum.

Aukin vanskil orðin mælanleg

Brynja segir þó að fasteignalán séu þau síðustu sem hafna í vanskilum og að vanskil á minni greiðsluseðlum, svo sem áskriftum og ýmissi þjónustu geti haft forspárgildi um frekari vanda framundan.

„Þetta byrjar yfirleitt í fáum flokkum“ segir hún í samtali við fréttastofu og tekur fram að vanskil hafi aukist verulega í flokkum heilbrigðisþjónustu, leigustarfsemi og fleiru.

„Ef þetta heldur áfram þá endar það á því að fólk lendi mögulega í vanskilum sem ganga lengra og lengra inn á forgangsröðunina og endar mögulega á fasteignalánum,“ segir hún.

Alvarleg vanskil einstaklinga hafa tekið mikið stökk.Motus

Hún segir aukningu á vanskilum orðna vel mælanlega í gögnum Motus og að sú staða sé komin upp í það mörgum flokkum að það sé farið að hringja viðvörunarbjöllum.

„Þetta eru talsverðar upphæðir sem eru komnar í vanskil sem voru ekki í vanskilum í fyrra,“ segir Brynja en alvarleg vanskil eru skilgreind hjá félaginu sem þau sem eru ógreidd lengur en 45 daga eftir eindaga.

Mikilvægt að vera vakandi

Í tilkynningu á heimasíðu Motus kemur fram að kröfum sem enn eru ógreiddar eftir eindaga hafi fjölgað um 5,2 prósent það sem af er ári miðað við sömu mánuði í fyrra og kröfum sem fara í alvarleg vanskil hafi fjölgað um nítján prósent.

Þannig hafa vanskil aukist um 6,6 prósent hjá einstaklingum og 1 prósent hjá fyrirtækjum. Hins vegar hafi vanskil aukist um 17,5 prósent og 18,9 prósent hjá einstaklingum og fyrirtækjum í þeirri röð.

Alvarleg vanskil fyrirtækja milli ára.Motus

„Fasteignalán eru oft þau síðustu sem hafna í vanskilum, enda vill fólk halda í heimili sín. Vanskil á minni greiðsluseðlum, svo sem áskriftum og ýmissi þjónustu geta þó haft forspárgildi um frekari vanda framundan. Þess vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir merkjum um aukin vanskil í samfélaginu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×