Íslenski boltinn

Fram með Bestu deildar ör­lögin í sínum höndum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram vann afar mikilvægan sigur á Gróttu í kvöld.
Fram vann afar mikilvægan sigur á Gróttu í kvöld. fram

Með öruggum sigri á Gróttu í kvöld, 4-1, komst Fram upp í 2. sæti Lengjudeildar kvenna í fótbolta.

Fyrir leikinn var Grótta í 2. sætinu og hefði með sigri í kvöld stigið stórt skref í átt að sæti í Bestu deildinni. En Fram vann góðan sigur og fór þar með upp fyrir Gróttu í töflunni. Liðin eru bæði með 28 stig en Framarar eru með hagstæðari markatölu.

Mackenzie Smith kom Fram yfir á 8. mínútu en Seltirningar jöfnuðu átta mínútum síðar.

Heimakonur endurheimtu forskotið þegar Sara Svanhildur Jóhannsdóttir skoraði á 28. mínútu. Níu mínútum síðar kom Murielle Tiernan Fram í 3-1.

Alda Ólafsdóttir gulltryggði svo sigur Framara þegar hún skoraði fjórða mark þeirra á 78. mínútu. Þetta var tólfta mark Öldu í Lengjudeildinni í sumar en hún kom til Fram frá Fjölni fyrir tímabilið. Í fyrra skoraði hún 33 mörk og var markahæst í 2. deildinni.

Fram er nú með örlögin í sínum höndum því vinni liðið síðustu tvo leiki sína í Lengjudeildinni fylgir það FHL upp í Bestu deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×