Þetta var ljóst í gær eftir að Íslendingaliðið keypti Svisslendinginn Manuel Zehnder frá ThSV Eisenach.
Magdeburg er sagt borga Eisenach í kringum fjögur hundruð þúsund evrur fyrir leikmanninn sem var með samning til ársins 2026. Það er meira en 61 milljón í íslenskum krónum.
Zehnder var markakóngur á síðustu leiktíð með 277 mörk eða fjórtán mörkum meira en Daninn Mathias Gidsel. Ómar Ingi Magnússon varð síðan þriðji markahæstur með 239 mörk.
Zehnder er 24 ára svissneskur landsliðsmaður sem spilar sem leikstjórnandi eða vinstri skytta.
Magdeburg vantaði tilfinnanlega meiri hjálp fyrir utan eftir að Felix Claar meiddist á Ólympíuleikunum en þýski landsliðsmaðurinn verður frá í marga mánuði.
Liðið missti líka íslenska landsliðsmanninn Janus Daða Smárason til Ungverjalands í sumar.
Íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson spilar líka með Magdeburg. Liðið varð þýskur meistari á síðustu leiktíð og hefur unnið annað hvort þýska meistaratitilinn (2022 og 2024) eða Meistaradeild Evrópu (2023) á síðustu þremur tímabilum.