Viðskipti innlent

Laus störf þrjú prósent á öðrum árs­fjórðungi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lausum störfum fjölgaði um 1360 á milli ársfjórðunga.
Lausum störfum fjölgaði um 1360 á milli ársfjórðunga. Vísir/Hanna Andrésdóttir

Alls voru 7570 laus störf á íslenskum vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi 2024. Á sama tíma voru 245.257 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því þrjú prósent.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Þar segir einnig að lausum störfum hafi fjölgað um 1360 á milli ársfjórðunga og hlutfall lausra starfa því aukist um 0,4 prósentustig.

Samanburður við annan ársfjórðung 2023 sýnir að lausum störfum fjölgaði um rúmlega þúsund störf á milli ára og hlutfall lausra starfa jókst um 0,3 prósentustig.

Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn sem nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með einn eða fleiri starfsmann í vinnu á viðmiðunardegi rannsóknarinnar. Úrtakið er valið í byrjun árs á grundvelli upplýsinga úr fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands frá árinu á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir annan ársfjórðung 2024 var 15. maí. Alls fengust 628 svör og var svarhlutfall 90%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×