Skoðun

Genagallaður al­menningur?

Örn Karlsson skrifar

Fjármálaráðherra sagði í Kastljósi gærkvöldsins að það lægi í DNA Íslendinga að sætta sig við háa verðbólgu.

Þarna liggur fyrir ný skýring á verðbólgunni meðal ráðamanna. Það er búið að henda fótanuddtækjakenningunni. Nú heitir það að Íslendingar séu haldnir genagalla og framkalli verðbólgu sama hvað.

Þessi kenning léttir augljóslega byrðar ráðamanna því þeir geta auðvitað ekki borið ábyrgð á arfgerð þjóðarinnar. Fjármálaráðherra hefur því með þessari kenningu skapað sjálfum sér svigrúm til að vera sæll og glaður í ólgusjó verðbólgu og hárra vaxta, þótt áþján þessa umhverfis þjaki óneitanlega mörg heimili landsins.

Bara ein spurning, eða tvær, til ráðherra; Af hverju ætli ráðherrann hafi ekki fyrst aðlagað íslenskt peningaumhverfi að því sem gerist í siðmenntuðum vestrænum lýðræðisríkjum sem náð hafa tökum á peningamálum sínum áður en hann hrapaði að þeirri niðurstöðu að við Íslendingar séum haldnir genagalla sem framkalli verðbólgu? 

Af hverju afnam hann ekki verðtryggingu og tók upp fastvaxtakerfi íbúðarlána rétt eins og tíðkast í þessum löndum áður enn hann vændi okkur um genagalla? 

Af hverju rak hann ekki seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands og réð fólk með þekkingu á peningamálum og peningahagfræði, t.d. fólk með reynslu úr innviðum bestu seðlabanka heimsins áður en hann vændi okkur um genagalla? Af hverju herra ráðherra?

Höfundur er vélaverkfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×