Veður

Vara við hættu á skriðu­föllum

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikilli úrkomu er spáð á Ströndum.
Mikilli úrkomu er spáð á Ströndum. vísir/vilhelm

Aukin hætta er á skriðuföllum á Norðurlandi, Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum fram á laugardag. Spáð er mikilli uppsafnaðri úrkomu á norðanverðu landinu dagana 22. til 24. ágúst.

Mesta úrkoman mun falla seinnipartinn í dag og á morgun en Veðurstofan á von á því að það dragi úr úrkomu á laugardaginn og stytta muni upp á sunnudag. Gera má ráð fyrir að það geti fryst í fjallstoppum og úrkoman muni að mestu falla sem rigning nema efst í fjöllum þar sem það mun snjóa.

Að sögn Veðurstofunnar má búast við vatnavöxtum og aukinni hættu á skriðum og grjóthruni þar sem rigning er mikil.

„Þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum getur verið hætta á skriðum og grjóthruni niður á vegi. Bent er á að fólk sýni aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfi í kringum sig og forðist að dvelja lengi innan og neðan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin,“ segir í færslu á vef Veðurstofunnar. Mikilvægt sé að tilkynna henni um skriðuföll.

Jarðvegur víða vatnsmettaður

Samkvæmt spá verður mesta úrkoman á norðanverðum Vestfjörðum, Ströndum, Tröllaskaga, austanverðum Tindastóli, Flateyjarskaga, Tjörnesi og Hellisheiði eystri. Einnig má gera ráð fyrir þónokkurri úrkomu á Borgarfirði eystra næsta sólarhringinn, að sögn Veðurstofunnar. 

Síðustu daga og vikur hafi rignt talsvert á norðanverðu landinu og megi því gera ráð fyrir að jarðvegur sé víða blautur eða vatnsmettaður.


Tengdar fréttir

Enn bætast gular við­varanir og þær nú orðnar fimm

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Norðurland, Breiðafjörð, Vestfirði og Suðausturland. Viðvörun vegna úrhellisrigningar á Norðurlandi eystra gildir frá klukkan 11 til 20 í dag og viðvörun vegna hvassviðris er í gildi fyrir Suðausturland fram til 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×