Fótbolti

Dybala sagði nei takk við ellefu milljarða til­boði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala fagnar einu af mörkum sínum fyrir AS Roma á síðustu leiktíð.
Paulo Dybala fagnar einu af mörkum sínum fyrir AS Roma á síðustu leiktíð. Getty/Francesco Pecoraro

Argentínski framherjinn Paulo Dybala lætur peningana frá Sádi-Arabíu ekki freista sín og hann ætlar frekar að spila áfram með ítalska félaginu Roma.

Erlendir fjölmiðlar segja frá því að Dybala hafi sagt nei takk við Sádana og hann staðfesti þetta líka óbeint á samfélagmiðlum sínum.

Samkvæmt fréttum var Dybala boðið 83 milljónir Bandaríkjadala fyrir þriggja ára samning eða 11,4 milljarða í íslenskum krónum.

„Takk fyrir Róm ... sjáumst á sunnudaginn,“ skrifaði Dybala á samfélagsmiðla sína.

Dybala er á sínu síðasta tímabili á samningi sínum við Roma en sá argentínski fær eitt ár í viðbót spili hann að minnsta kosti fimmtán leiki í öllum keppnum á þessu tímabili. Hann fær 7,5 milljónir evra í laun auk tveggja milljóna evra í mögulegum bónusum.

Dybala á því möguleika að fá samtals 9,5 milljónir evra fyrir tímabilið eða um 1,4 milljarða íslenskra króna.

Tilboðið frá Sádi-Arabíu bauð því upp á mikla launahækkun.

Dybala kom til Roma frá Juventus árið 2022. Hann hefur skorað 34 mörk og gefið 18 stoðsendingar í 78 leikjum með liðinu.

Stuðningsmenn Roma höfðu mótmælt hugsanlegri sölu á Dybala við höfuðstöðvar félagsins en eftir að Dybala gaf það út á samfélagsmiðlum að hann yrði áfram þá fögnuðu stuðningsmennirnir fyrir utan heimili hans í gærkvöldi og í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×