Um­fjöllun og við­töl: Fram - KA 1-2 | Ný hetja sendi KA í efri hlutann í blá­lokin

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Ingi Valsson skorar hér sigurmark KA án þess að Alex Freyr Elísson komi vörnum við.
Dagur Ingi Valsson skorar hér sigurmark KA án þess að Alex Freyr Elísson komi vörnum við. vísir/Diego

Nýjasti KA-maðurinn, Dagur Ingi Valsson, tryggði liðinu óhemju mikilvægan 2-1 sigur gegn Fram í Úlfarsárdal í dag, í 20. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.

Dramatíkin var mikil í lok leiksins því skömmu áður en Dagur Ingi skoraði varð allt brjálað þegar Framarar töldu sig eiga að fá vítaspyrnu. Boltinn hafði hrokkið af fæti Ívars Arnar Árnasonar og í hönd hans, innan teigs, en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var handviss og dæmdi ekkert.

Dagur Ingi Valsson skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma.vísir/Diego

Framarar mótmæltu þessu kröftuglega og fékk þjálfarinn Rúnar Kristinsson að líta gula spjaldið. Vonbrigði þeirra urðu svo ekki minni við mark Dags Inga en þessi tæplega 25 ára Austfirðingur skoraði seint í uppbótartíma, eftir frábæra fyrirgjöf Daníels Hafsteinssonar.

Sigurinn fleytir KA upp fyrir Fram og í efri hluta Bestu deildarinnar, nú þegar aðeins tvær umferðir eru í að deildinni verði skipt upp. Sannarlega mikill viðsnúningur frá því í upphafi tímabils þegar allt gekk á afturfótunum hjá KA-mönnum, en þeir hafa núna spilað ellefu leiki í röð án taps, í deild og bikar.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson hafði í nógu að snúast í dag.vísir/Diego

Framarar hafa aftur á móti tapað þremur leikjum í röð og gætu dregist niður í 8. sæti á morgun ef Stjarnan vinnur HK.

Það var Viðar Örn Kjartansson sem skoraði fyrra mark KA í leiknum, strax á 9. mínútu, eftir fallega stungusendingu Daníels. Framarar jöfnuðu skömmu síðar þegar Freyr Sigurðsson átti fasta sendingu þvert fyrir mark KA og Hans Viktor Guðmundsson skoraði óvart í eigið mark.

Viðar Örn Kjartansson kom KA yfir snemma leiks.vísir/Diego

Leikurinn var bráðfjörugur og líkt og Fram vildi fá víti í lok leiksins þá virtist KA eiga heimtingu á víti í lok fyrri hálfleiks, þegar Haraldur Einar Ásgrímsson virtist slá boltann nánast á marklínu. Það dofnaði þó aðeins yfir leiknum í seinni hálfleiknum en dramatíkin var alls ráðandi í lokin eins og fyrr segir.

Magnús Þórðarson fagnar með Frey Sigurðssyni sem bjó til mark Framara.vísir/Diego

Atvik leiksins

Það hlýtur að vera sigurmarkið góða sem Dagur Ingi Valsson skoraði í aðeins sínum öðrum leik fyrir KA, rétt eftir að Framarar fengu ekki vítaspyrnuna sem þeir töldu sig eiga heimtingu á. Gríðarlegur viðsnúningur á stuttri stundu og gæti ráðið úrslitum fyrir liðin á þessari leiktíð, um hvort þeirra spilar við bestu liðin í efri hlutanum í lok tímabils, og hvort þarf að spila við lélegustu liðin.

Dagur Ingi Valsson fagnar með nýju félögum sínum eftir sigurmarkið dýrmæta.vísir/Diego

Stjörnur og skúrkar

Dagur Ingi er augljós hetja og strax farinn að sýna af hverju KA-menn voru tilbúnir að ganga langt til að landa honum frá Keflavík rétt fyrir lok félagaskiptagluggans.

Daníel Hafsteinsson var hins vegar maður leiksins, með tvær frábærar stoðsendingar. Kennie Chopart var mjög áberandi í liði Fram og óheppinn að fá ekki að minnsta kosti eina stoðsendingu út frá frammistöðu sinni.

Það væri auðvelt að benda á Hans Viktor sem skúrk eftir sjálfsmarkið en félagar hans voru ekki að gera honum neinn greiða í aðdragandanum. Auk þess bætti hann upp fyrir það með ótrúlegri björgun þegar Guðmundur Magnússon virtist vera að koma Fram í 2-1 í fyrri hálfleik.

Alex Freyr Elísson var oft flottur í leiknum og olli Darko Bulatovic erfiðleikum, en úrslitamark leiksins verður hins vegar að skrifast að stórum hluta á Alex sem varðist fyrirgjöf Daníels með ansi veiklulegum hætti.

Dómarinn

Vilhjálmur Alvar leyfði leiknum að fljóta mjög vel og úr varð úrvals skemmtun. Hann hins vegar hafa misst af því þegar Haraldur Einar sló boltann til að koma í veg fyrir mark KA rétt fyrir hálfleik. Af endursýningu að dæma var þetta bara víti og rautt. Ég held að hann hafi hins vegar neglt ákvörðunina varðandi hvort dæma ætti víti á Ívar Örn í lokin, eins svekkjandi og það var fyrir Framara.

Framarar vildu fá vítaspyrnu seint í leiknum en þeim varð ekki að ósk sinni.vísir/Diego

Stemning og umgjörð

Allt upp á tíu á Lambhagavelli. Ofboðslega þægilegt að koma á þennan nýja og glæsilega völl og ég gat ekki séð betur en að áhorfendur nytu þess í botn í veðurblíðunni. Starfsmenn allir af vilja gerðir að hjálpa fjölmiðlamönnum og engin fýla í mönnum út af úrslitum leiksins. Ljómandi góðir hamborgarar. Stuðningsmenn skemmtilegir, stundum með fyndna söngva, en kannski aðeins of fókuseraðir á Vilhjálm dómara.

Hallgrímur: Alvöru áskorun fyrir ungan þjálfara

Eins og fyrr segir þá leit það alls ekki þannig út í byrjun móts að KA yrði í efri hluta úrslitakeppninnar. En núna er liðið búið að taka stóra skrefið upp í 6. sæti:

„Það er alvöru áskorun fyrir ungan þjálfara þegar hlutirnir ganga ekki upp eins og maður vonaðist til, og maður þarf að hugsa út fyrir boxið og finna breytingar. En þetta hefur gengið vel og strákarnir hafa trúð á þetta allan tímann, verið ótrúlega flottir,“ segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.

„Við erum með sterka karaktera, stráka að norðan sem kunna að standa saman. Það kom aldrei neitt annað til greina en að vinna okkur út úr þessu og það þarf að hrósa þvílíkt öllum þeim sem standa að þessu hjá KA, stjórninni og öllum, að hafa haldið trúnni og haldið áfram. Við höfum snúið þessu við en þetta er hvergi búið,“ bætir hann við.

Hallgrímur Jónasson kemur skilaboðum til sinna miðjumanna.vísir/Diego

Spurður út í leikinn við Fram í kvöld svaraði Hallgrímur:

„Það er æðislegt að skora hérna frábært mark í lokin og vinna leikinn. Mér fannst við í leiknum sjálfum skapa svolítið af færum og geta skorað meira, en ég er ekki alveg sáttur með hvorki pressuna né spilið okkar í leiknum. Við vorum aðeins að ströggla en þegar svo er þá þarftu að setja hausinn undir þig og vinna. Við hlupum allan leikinn og börðumst, og það borgaði sig í lokin.“

Æðislegt fyrir Dag

Er ekki bara sjálfstraustið farið að fleyta liðinu yfir ákveðna hjalla, eftir svo langa törn án taps?

„Jú, þetta eru ellefu leikir án þess að tapa og það er yndislegt að sjá hvað menn leggja sig fram. Þannig geturðu alltaf haldið lífi í leiknum og við gerðum það, og gaman fyrir Dag sem er nýkominn að klára þetta. Núna erum við í sjötta sæti, komin trú í liðið og spennandi tímar framundan, en við erum áfram meðvitaðir um að við þurfum betri frammistöðu í næsta leik.

Þetta er æðislegt fyrir Dag, nýkominn í nýtt lið, að geta strax hjálpað liðinu. Hann er nýkominn og er að læra á okkur, og við á hann. Hann stóð sig vel í dag. Þetta er strákur utan af landi, frá Fáskrúðsfirði, sem hefur staðið sig vel þar og í Keflavík. Hann vildi koma til okkar og við erum ánægðir með það. Þetta var frábært fyrir hann og KA í dag.“

Dagur Ingi: Hikandi við að fagna

„Þetta var mjög mikilvægur sigur, í leik sem gat fallið hvoru megin sem var. Geggjað að klára þetta,“ sagði Dagur Ingi, hetja KA-manna. Hann lýsti markinu svona:

„Það kom kross af hægri kantinum og ég náði að stíga fram fyrir bakvörðinn. Ég var pínu hikandi við að fagna því ég var ekki viss um hvort hann myndi dæma brot. Þetta var náttúrulega aldrei brot. Það var geggjað að ná að klára þetta svona. Draumabyrjun, en þetta er rétt að fara af stað og við horfum á topp sex.“

Þetta var annar leikur Dags Inga eftir komuna frá Keflavík og ljóst að hann ætlar að láta til sín taka á Akureyri. Þar þekkir hann vel til:

„Ég hef búið áður á Akureyri og maður er búinn að koma sér fyrir þarna. Þetta lítur mjög vel út. Þetta er geggjuð staða sem við erum í og ég er mjög sáttur við hvernig þetta er að spilast eins og er.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira