„Ég finn það hér í samfélaginu okkar í Norðfirði, í samfélaginu okkar í Fjarðabyggð, uppi í Múlaþingi og fólk sem ég hef heyrt um allt land. Það er bara mikil sorg. Eðlileg viðbrögð sorgar eru doði. Það er lágskýjað en eins og prestarnir sögðu í gær verðum við að muna það að það birtir alltaf aftur. En auðvitað er mikil sorg í samfélaginu okkar á Austurlandi og víðar í dag,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.
Kveiktu ljós vonar
Hann segir bæjarbúa hafa fjölmennt á fallega minningarstund í Norðfjarðarkirkju í gær. Ljós vonar hafi verið kveikt og bæjarbúar komið saman til að styðja hver annan. Hann segir atburðarás síðustu daga fá mikið á lítið samfélag eins og Fjarðabyggð.
„Þetta er mikið fyrir lítið bæjarfélag, þetta er mikið fyrir Austurland. Þetta er mikið fyrir landið allt. Við erum ekki stærri en það. Þetta hefur víða áhrif og auðvitað erum við bara í sorg. En um leið er svo mikilvægt fyrir okkur að standa saman og sýna hvert öðrum kærleik og hlýju og þannig komumst við í gegnum þetta saman,“ segir hann.
Hann segir það gæfu Norðfirðinga að þeir standi saman og reiði sig hver á annan. Áfallamiðstöð opni klukkan fjögur í Egilsbúð í dag og hvetur Jón fólk til að nýta sér þjónustu hennar.
„Við deilum sorginni saman en hugur okkar er hjá þeim sem eiga hvað sárast um að binda,“ segir Jón Björn.
Lífið verði að halda áfram
Jón segir prestana í sveitinni sinna skyldum sínum af miklum sóma. Þeir hafi í ýmsu að snúast og komi til með að taka virkan þátt í áfallahjálp og sálgæslu ásamt starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands, áfallateymi Rauða krossins og starfsmönnum sveitarfélagsins í félagsþjónustu.
„Síðan verðum við bara að láta kærleikann umvefja okkur og sýna hvort öðru kærleika og umhyggju. og halda áfram með lífið. Lífið verður að halda áfram hvað sem á dynur,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.