Skoðun

Takk Agnes fyrir að standa með konum í neyð

Rósa Björg Brynjarsdóttir skrifar

Nú þegar líður að lokum skipunartíma Agnesar M. Sigurðardóttur, sem fyrst kvenna var skipuð biskup Íslands, langar mig að þakka henni sérstaklega fyrir að hafa beitt sér fyrir opnun Skjólsins, sem byggir á hennar hugmynd um úrræði fyrir heimilislausar konur.

Í fjögur ár hefur Þjóðkirkjan og Hjálparstarf kirkjunnar boðið konum sem búa við heimilisleysi, eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi eða búa við ótryggar aðstæður velkomnar í Skjólið. Í Skjólinu geta konurnar hvílt sig, borðað saman auk þess sem þeim stendur til boða hreinlætisaðstaða. Þá er starfsfólk Skjólsins til staðar til að sinna þörfum kvennanna fyrir samveru og nánd.

Á þessum fjórum árum sem Skjólið hefur verið starfrækt hefur Agnes biskup og djáknar biskupsstofu verið reglulegir gestir hjá okkur. Agnes kom í reglulegar heimsóknir þegar konurnar okkar hafa óskað eftir samtali, eða bara litið við til að heilsa upp á okkur. Þær stundir hafa verið okkur ómetanlegar.

Agnes hefur einnig átt samveru með okkur öll jól þar sem við höfum borðað góðan mat saman og hún hefur lesið fyrir okkur jólaguðspjallið – allt stundir sem okkur þykir afar vænt um. Auk þess að fjármagna rekstur Skjólsins hefur aðkoma kirkjunnar reynst afar mikilvæg fyrir starfið sem er ein helsta birtingarmynd kærleiksþjónustu kirkjunnar þar sem hér er jaðarsettum konum veitt skjól.

Fyrir hönd þeirra rúmlega 130 kvenna sem hafa heimsótt okkur frá opnun og starfskvenna Skjólsins þakka ég Agnesi biskupi kærlega fyrir að hafa komið hugmyndinni að Skjólinu í framkvæmd. Ég hef fundið að konurnar upplifa öryggi og að það hafi, eins og þær hafa orðað það, „bjargað lífinu“ að geta komið í Skjólið.

Takk Agnes.

Höfundur er umsjónarkona Skjólsins.




Skoðun

Sjá meira


×