Fótbolti

Þýskur blaða­maður hleypur til minningar um Atla Eð­valds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Eðvaldsson lék við góðan orðstír hjá Fortuna Düsseldorf á árunum 1981-85.
Atli Eðvaldsson lék við góðan orðstír hjá Fortuna Düsseldorf á árunum 1981-85. ksí

Í dag fer Reykjavíkurmaraþonið fram þar sem margir hlaupa í þágu góðs málefnis. Þýskur blaðamaður hleypur til minningar um einn dáðasta íþróttamann Íslands.

KSÍ greindi í gær frá því að sambandinu hefði borist tölvupóstur frá Andreas Turnsek sem er þýskur blaðamaður frá Düsseldorf og var góður vinur Atla Eðvaldssonar.

Þeir kynntust fyrir fjórtán árum þegar þeir léku saman með liði tengdu fyrrum leikmönnum Fortuna Düsseldorf og með þeim tókst góð vinátta.

Turnsek er nú kominn til landsins og ætlar að hlaupa Reykjavíkurmaraþonið í dag til að minnast þess að fimm ár eru síðan Atli lést. Hann ætlar að hlaupa treyju merktri Atla.

Atli lék með Fortuna Düsseldorf á árunum 1981-85. Tímabilið 1982-83 var hann annar markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 21 mark. Fimm þeirra komu í leik gegn Frankfurt 6. júní 1983. 

Atli var fyrsti erlendi leikmaðurinn til að skora fimm mörk í leik í þýsku úrvalsdeildinni og sá eini til 2015 þegar Robert Lewandowski skoraði fimm mörk fyrir Bayern München gegn Wolfsburg. Alls lék Atli 136 leiki með Fortuna Düsseldorf og skoraði 42 mörk.

Þess má geta að íslenski landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson leikur nú með Fortuna Düsseldorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×