Lífið

Mörgum finnst ó­þægi­legt að tala um fjár­málin sín

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Valdís lifir sannkölluðu draumalífi á Spáni og hefur komið sér vel fyrir ásamt fjölskyldu sinni.
Valdís lifir sannkölluðu draumalífi á Spáni og hefur komið sér vel fyrir ásamt fjölskyldu sinni. Aðsend

„Fjármál eru svo ótrúlega stór þáttur af lífi okkar. Af hverju að forðast þau? Viljum við ekki frekar reyna að leggja okkur fram í að skilja peninga og hvernig við getum notað þá? Það er nú einu sinni þannig að allt í lífinu er erfitt þegar við kunnum það ekki,“ segir Valdís Hrönn Berg fjárhagsmarkþjálfi.

Valdís heldur úti síðu á Instagram og Facebook þar sem hún fjallar um fjárhagslega heilsu og veitir fólki margvísleg ráð til að bæta sjálfstraustið í kringum peninga.

„Ég legg upp með að hafa efnið persónulegt, mannlegt, á mannmáli. Ég vil nálgast þetta þannig af því að ég held að umræðan um fjármál sé dálítið ógnvekjandi í hugum margra. En þetta þarf ekki að vera og flókið og leiðinlegt viðfangsefni,“ segir Valdís í samtali við Vísi.

Fjármál eru oft feimnismál

Valdís er búsett á Spáni ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum, og rekur fyrirtækið Berg Coaching. Fyrir utan að starfa sem markþjálfi er hún einnig sölufulltrúi hjá Perla Investment, þar sem hún aðstoðar fólk við að finna draumahúsnæðið á Spáni.

Bakgrunnur Valdísar er úr viðskiptum.

„Ég byrjaði á því að taka diplómu í verslunarstjórnun og seinna meir lauk ég BS námi í viðskiptafræði. Samhliða því var ég að vinna hjá Krambúðinni verslunarkeðjunni, fyrstu sjö árin sem verslunarstjóri og síðan í tvö ár sem rekstrarstjóri yfir Iceland verslununum. Það var virkilega skemmtilegur tími, þó það hafi verið mjög krefjandi líka, sérstaklega þegar covid skall á. Ég eignaðist síðan yngri strákinn minn árið árið 2021 og lenti í því að vera sagt upp vinnunni í fæðingarorlofinu.

Valdís tók u beygju í lífinu á sínum tíma og gerði það að atvinnu að hjálpa fólki að bæta fjárhagslega heilsu.Aðsend

Ég var þess vegna á ákveðnum tímamótum þarna og fór í naflaskoðun; íhugaði virkilega hvað ég vildi fara að gera næst. Og ég vissi að mig langaði að gera eitthvað meira skapandi, hafa meira frelsi og nýta líka reynsluna sem ég hafði. Ég fór í gegnum stjórnendamarkþjálfun á sínum tíma, í tengslum við vinnuna og fannst það virkilega gaman. Það endaði á því að ég skráði mig í nám í markþjálfun, og hugsaði með mér að kannski gæti ég nýtt það nám til að hjálpa sjálfri mér og koma betur auga á hvað ég vildi gera í framtíðinni. En eftir því sem leið á námið þá rann upp fyrir mér að þetta væri það sem ég vildi vinna við; styðja við aðra og hjálpa þeim að finna styrkleika sína og hvernig er hægt að lifa lífinu á sínum forsendum.“

Valdís fór í kjölfarið í framhaldsnám og ákvað að einblína á fjárhagsmarkþjálfun.

„Það spannst svona út frá því að ég hef alltaf haft áhuga á peningum, mér finnst gaman að vinna með peninga og tala um peninga. Og mér finnst sálfræðin á bak við peninga svo spennandi og áhugaverð; hvernig peningar hafa áhrif á hegðun okkar og hugsun. Það spilaði líka inn í að á þessum tíma var ég búin að vera í mikilli sjálfsvinnu hvað varðaði mín eigin fjármál og mitt eigið viðhorf og tilfinningar gagnvart peningum. Ég tók líka eftir því, þegar ég ræddi við fólk, að nánast önnur hver manneskja var að upplifa hræðslu, kvíða og óöryggi varðandi fjármálin sín. 

Eftir því sem ég fór að skoða þetta viðfangsefni meira, kanna og rannsaka, þá sá ég betur hvað persónuleg fjármál eru oft„tabú“ viðfangsefni. Mörgum finnst óþægilegt að tala um fjármálin sín og að viðurkenna að þeir þurfti aðstoð. Það er eins og það sé almennt gert ráð fyrir að þegar þú ert kominn á fullorðinsaldur þá eigir þú kunna þetta, vita hvernig fjármál virka og hvað sé rétt að gera.

 Ég komst líka að því að uppeldi fólks, umhverfið sem það kemur úr hafi oft mikið að segja þegar kemur að fjármálahegðun og viðhorfi fólks til peninga.“

Lærði af reynslunni

Valdís segist sjálf hafa gert ófá mistök í gegnum tíðina þegar kemur að fjármálum, en að sama skapi hafi hún lært af þeim.

Hún gekk að eigin sögn í gegnum lélegt fjármálauppeldi, auk þess að vera með ógreint ADHD og allsskonar áföll á bakinu. Hún hafi þurft að vinna sig aftur og aftur í gegnum skuldir og áskoranir,

„Þegar ég var um tvítugt var ég með næstum milljón krónur í Visa skuld. Ég fékk mitt dópamín „kikk“ með því að kaupa mér hina og þessa hluti. Borgaði síðan niður neyslulán með því að taka námslán. Ég hef átt mjög slæmt samband við peninga og komið mér í vandræði fjárhagslega. Þannig að ég hef svo sannarlega gert fullt af mistökum, eins og eyða um efni fram. En ég held reyndar að það sé einn af mínum styrkleikum í þessu starfi sem ég er í núna í dag. Ég veit alveg hvernig það er með að vera með yfirdrátt upp á mörg hundruð þúsund og margar greiðsludreifingar í gangi í einu. Ég veit að það er erfitt að koma sér upp úr þessu mynstri, en ég veit líka að það er hægt.

Ég upplifði þó ákveðin forréttindi að því leytinu til að ég gat keypt mína fyrstu íbúð fyrir tólf árum, með smá klinki sem ég átti inni á bankabók, fyrirfram greiddum arfi frá ömmu og láni frá mömmu. Það ýtti undir að ég varð að taka ábyrgð á eigin fjármálum, núna var ég orðin íbúðareigandi og bar ábyrgð. Ég bjó að því að hafa verið í starfi og námi þar sem ég lærði ýmislegt um rekstur og ég gat nýtt mér það. Og ég byrjaði að líta á mín eigin persónulegu fjármál eins og fyrirtækjarekstur. 

Þegar ég fór virkilega að plana og kortleggja hvert peningarnir mínir fóru að hlutirnir að breytast. Þá varð auðvelt fyrir mig að sjá hvað ég vildi hafa í forgangi og hvernig ég vildi að peningarnir virkuðu fyrir mig. 

Og ég lagði upp með að læra af reynslunni og skilja hvað lá að baki minni eyðsluhegðun á sínum tíma, í stað þess að skamma sjálfa mig endalaust.“

Mismunandi hvað hentar hverjum og einum

Þegar einstaklingur leitar til Valdísar er yfirleitt fyrsta skrefið að fá heildaryfirsýn á fjármálin.

„Og þá erum við ekki bara horfa á reikningana, heldur einblína á alla heildarmyndina og sjá hvort það er hægt að koma strax auga á eitthvað mynstur. Hvað ertu að fá inn í tekjur á mánuði og er það stöðugt? Hvernig er eyðslan að dreifast í hverri viku? Ef við tökum sem dæmi, þig langar að geta veitt þér einhvern munað eins og að fara í nuddtíma. Geturu kannski sleppt því að kaupa áskrift að Netflix og „fundið“ þannig pening til borga fyrir nudd? Ég er ekki mjög hlynnt því að skera niður alla persónulega eyðslu til að borga skuldir. Stundum þarf jú að gera það í einhvern takmarkaðan tíma. En mér finnst skipta mestu máli að kenna fólki að nota peningana sína í það sem veitir þeim lífsgæði, hamingju og öryggi- á sama tíma og það er að borga niður skuldir.“

Sem fjárhagsmarkþjálfi nálgast Valdís hlutina öðruvísi heldur en fjármálaráðgjafar gera.

„Það skiptir máli að einblína á hugarfarið hjá viðkomandi, hvernig viðkomandi hugsar um peninga, hvað skiptir viðkomandi máli í lífinu og hvernig forgangsröðunin er. Nálgast þetta út frá persónunni. Ég dæmi fólk aldrei fyrir hvað það er að eyða peningunum sínum í, því oftar en ekki erum við að gera eitthvað ómeðvitað út af vana og eigum erfitt með að átta okkur á hvernig staðan er og notum kaup á hlutum sem plástur á sár.“ ef það er eyða þeim í eitthvað sem skiptir það máli.“

Valdís bætir við að þegar komi að ráðgjöf varðandi til dæmis eyðslu þá sé mismunandi hvað henti hverjum og einum.

„Ein algengasta spurningin sem ég fæ frá fólki er hvað sé eðlilegt að eyða í mat á mánuði. En ég get ekki svarað því. Fjölskylduaðstæður, og þarfir og langanir fólk eru svo mismunandi. Sumir elska meira en aðrir að fara út að borða, á meðan sumir eru hrifnari af því að elda heima og sumir vilja bara borða lífrænt eða annað sérfæði sem kostar meira.

Þetta er svo persónubundið og það hentar ekki það sama öllum þegar kemur að því að rétta af fjármálin. Við erum öll á mismunandi stað í lífinu og með mismunandi þarfir; sumir eru einstæðir, sumir eru með maka, sumir eru með maka og börn, sumir eru að ganga í gegnum skilnað.“

Meðvitund skiptir máli

Valdís segist ekki vera hrifin af því að nota orðið „fórna“ og tala um að skera niður og að sleppa þegar kemur að því að taka til í fjármálum.

„Ég vil frekar tala um að gefa afslátt. Gefa afslátt á einu sviði í eyðslu fyrir annað svið. Á hvaða sviðum ertu tilbúinn til að lækka standarinn, til að geta lifað því lífi sem þú vilt?“

Hún bætir við að þegar komið að neyslu þá spili meðvitund stórt hlutverk.

„Það byrjar allt gott með meiri meðvitund. Það er svo mikill hraði í samfélaginu og mikið áreiti og fólk gefur sér ekki endilega tíma til að staldra við og hugsa; Af hverju var ég að kaupa þetta? Af hverju var ég að hlaupa út í búð og kaupa fjörtíu þúsund króna merkjavöru-kuldagalla á barnið mitt þegar ég get farið í Barnaloppuna og keypt galla á fimm þúsund?

Þessi meðvitund spilar stórt hlutverk í fjárhagshegðun okkar. Það getur breytt miklu að staldra við þegar maður er að fara að kaupa eitthvað og hugsa um afleiðingarnar: Þarf ég virkilega á þessu að halda? Mun þetta hafa áhrif á framtíðar-mig? Munu þessi kaup valda mér fjárhagsáhyggjum í næstu viku eða næsta mánuði? Mun þetta veita mér gleði og ánægju eða mun þetta valda mér áhyggjum seinna meir?“

Valdís leggur áherslu á að jafnvel þó að einstaklingur sé kominn í veruleg fjárhagsvandræði þá sé yfirleitt alltaf leið út.Aðsend

Ávallt hægt að finna leið

Í nokkrum færslum sem Valdís hefur birt á Instagram og Facebook hefur hún fjallað um hugtakið fjármálaskömm. Margir af þeim sem hafa leitað til hennar hafa steypt sér í miklar skuldir, sýnt óráðsíu í fjármálum í gegnum tíðina og eru þjakaðir af skömm vegna aðstæðna sinna.

„Og það er auðvelt að festast í þessari hugsun og vera alltaf að brjóta sjálfan sig niður fyrir að hafa tekið slæmar ákvarðanir í fjármálum, eytt um efni fram eða annað slíkt. Ég segi alltaf að það er eðlilegt að finna fyrir skömm þegar maður sér eftir því að hafa gert eitthvað. En það er hins vegar ekki eðlilegt að ákveða að dvelja í henni, leyfa henni að taka yfir. Ákveða að allt sé ómögulegt og að það sé engin leið upp úr þessum vanda. Það er miklu gagnlegra að reyna að læra af þessu, og skoða sjálfan sig svolítið ofan í kjölinn í leiðinni. Af hverju gerði ég þetta? Hvað var í gangi í lífi mínu á meðan þetta var? Oft er þessi sjálfskoðun það sem fólk þarf; það þarf aðstoð við að átta sig á hvað var að ýta undir þessa hegðun á sínum tíma. Í kjölfarið er síðan hægt að einblína á næstu skref, og hvernig maður ætlar að bregðast við næst þegar þessar aðstæður koma upp.“

Valdís leggur áherslu á að jafnvel þó að einstaklingur sé kominn í veruleg fjárhagsvandræði þá sé yfirleitt alltaf leið út.

„Það er alltaf hægt að finna lausnir. En það fer allt eftir einstaklingnum og hvað viðkomandi er tilbúinn að leggja á sig. Hvað ertu tilbúinn að gera? Ætlar þú að dvelja í þessu ástandi eða ertu tilbúinn til að leggja eitthvað aukalega á þig í smá tíma til að snúa dæminu við? Og hvað ertu tilbúinn til að gera og hvað ekki?

Mér finnst gott að líta á þetta þannig að við göngum í gegnum allskonar tímabil í lífinu, og það varir ekkert að eilífu. Það er gott að búa til skrefaplan og hugsa þetta skref fyrir skref. Þá sér viðkomandi að svona er staðan í dag, staðan er erfið, en þetta er bara tímabundið, og mun hafast á endanum. Ég hef sagt við fólk í þessum aðstæðum að þetta verði erfitt verkefni og muni taka tíma og það muni krefjast þolinmæði og sjálfsmildi. Ég segi samt aldrei við fólk að það eigi að gera þetta og eigi að gera hitt, heldur set ég fram möguleikana, og það veltur síðan á viðkomandi hvað hann vill gera í framhaldinu.“

Fjárhagsleg og andleg heilsa haldast í hendur

Hugtök eins og fjármálaskömm, fjárhagskvíði og fjárhagsleg heilsa eru tiltölulega ný af nálinni en þau eru til af ástæðu.

„Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því, eða kannski er bara ekki nógu mikið talað um það hvað góð fjárhagsleg heilsa er mikilvæg og hvernig hún tengist andlegri heilsu,“ segir Valdís.

„Það er gefið að við fyllumst óöryggi og kvíða ef fjárhagsstaðan er slæm. Það er svo mikill vanmáttur sem fylgir því. Og það smitar út frá sér, út í allt daglegt líf. Ég tala nú ekki um fjármál eru oft stór ástæða fyrir ágreiningu og jafnvel sambandsslitum og hjónaskilnuðum; valda til dæmis valdaójafnvægi eða skapa allskonar lítil og stór rifrildi. Ég hef fengið pör til mín, sem eru að leita eftir sameiginlegri fjárhagsmarkþjálfun, þar sem við erum að fara yfir þetta allt og finna lausnir. Fólk hefur sagt við mig í enda tímans að þetta hafi verið eins og sambandsráðgjöf. Þau hafi náð að taka á svo mörgum ágreiningsmálum, sem öll tengdust fjármálum á einn eða annan hátt.“

Valdís bendir á að fjárhagsleg heilsa snúist ekki bara um það að eiga sem mest eða fá hærri laun, heldur um það hvernig við upplifum að fá peninga til okkar, eiga þá, og hvernig við notum þá til að styðja við okkur í lífinu, Aðspurð um hvort hún eigi eitthvað „uppáhalds“ ráð þegar kemur að fjármálum segir Valdís:

„Það sem aðrir velja að gera við peningana sína skiptir þig ekki máli. Þú þarft að vita hvað skiptir þig máli, hvað veitir þér ánægju og lífsfyllingu. Eftir því sem við þekkjum okkur sjálf betur, því auðveldara er að taka réttar fjárhagslegar ákvarðanir fyrir okkur sjálf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×