Umræðan

Um­ræða að kvikna um vanda lofts­lags­stefnu Ís­lands?

Albert Jónsson skrifar

Vandi loftslagsstefnunnar stafar frá því grundvallaratriði að íslenskur orkubúskapur er allt annars eðlis og á allt öðrum stað en hjá næstum öllum öðrum ríkjum heims. Það ræðst af því að hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi er margfalt hærra en víðast annarsstaðar.*

Afleiðing þessa er hins vegar ekki að auðvelda framkvæmd loftslagsstefnunnar sem mótuð hefur verið. Hún snýst um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda enn frekar en þegar hefur orðið vegna stórfelldrar nýtingar endurnýjanlegrar orku frá fallvötnum og jarðhita, sem hófst með hitaveituvæðingu upp úr 1930.

Að minnka áfram losun gróðurhúsalofttegunda verður hins vegar miklu dýrara á Íslandi en annarsstaðar einmitt vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt.

Það veldur því að Ísland á miklu færri kosti en önnur ríki til að minnka losun enn frekar eins og ég hef áður útskýrt í grein sem birtist í marsmánuði á þessu ári.

Grundvallarspurning, sem á eftir að svara í umræðu hér á landi um loftslagsmál, er hvaða þýðingu þessi afgerandi munur á Íslandi og næstum öllum öðrum ríkjum hafi fyrir loftslagsstefnuna.

Eins og mál standa núna fela yfirlýst markmið Íslands í loftslagsmálum í sér óbærilegan kostnað fyrir samfélagið og stefnan hlýtur að lenda í ógöngum.

Í greinum á vefsíðu minni um alþjóða- og utanríkismál og viðtölum við mig í fjölmiðlum hefur verið bent á að leið út úr þessum vanda. Hún er að taka upp nýja loftslagsstefnu byggða á augljósri sérstöðu Íslands í orkumálum. Beðið verði með að reyna að ná yfirlýstum markmiðum í loftslagsmálum að minnsta kosti þar til önnur ríki hafa almennt nálgast hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi.

Yfirlýst markmið Íslands í loftslagsmálum fela í sér óbærilegan kostnað fyrir samfélagið og stefnan hlýtur að lenda í ógöngum.

Aðalatriði er þó að telja má útilokað að samstaða geti orðið í íslensku samfélagi og pólitík um yfirlýsta stefnu – og henni verði því óhjákvæmilega að breyta.

Umræða um þessi mál og grundvallaratriði kann að vera að kvikna. Að undanförnu hafa birst greinar eftir forystuaðila í Samtökum atvinnulífsins og ennfremur þingmann Sjálfstæðisflokks, þar sem loftslagsstefnan er gagnrýnd með sama hætti og sömu röksemdum og hafa komið fram í greinum mínum. Tekið er undir að byggja eigi stefnuna á sérstöðu Íslands í orkumálum.


Höfundur er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál og fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Rússlandi.

*Greinin birtist fyrst á vefsíðu Alberts þar sem hann fjallar reglulega um alþjóðamál.






×