Innlent

Leggur til tak­markanir á að­gengi að nikótínpúðum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra vill takmarka aðgengi að nikótínpúðum.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra vill takmarka aðgengi að nikótínpúðum. vísir/vilhelm

Heilbrigðisráðherra boðar frumvarp á haustmánuðum sem ætlað er að takmarka aðgengi að nikótínvörum á borð við nikótínpúða. Hann fagnar umræðu um skaðsemi púðanna og segir þjóðarátak nauðsynlegt. 

Fyrir helgi fjölluðum við um fjölgun nikótínverslana í höfuðborginni en slíkar verslanir spretta upp eins og gorkúlur. Foreldrar lýstu yfir miklum áhyggjum af þróuninni og kölluðu eftir þjóðarátaki.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra fagnar umræðunni og segist sammála foreldrum, þörf sé á átaki.

„Ég held að það þurfi að gera meira. Við þurfum að taka þessari umræðu alvarlega og fylgja henni eftir þannig ég fagna þessu framtaki.“

Hann undirbýr nú frumvarp sem tekur á nikótínneyslu ungmenna sérstaklega.

„Og takmarka enn frekar aðgengi að þessum vörum og verja, eins og forvarnarstefna og þau lög kveða á um, sérstaklega börn og unglinga sem eru viðkvæmir hópar fyrir auglýsingamennsku á þessu sviði.“

Hann segist vonast til að geta lagt frumvarpið fram strax á haustmánuðum og segir nikótínskatt og auglýsingabann á meðal aðgerða sem til skoðunar eru í undirbúningi frumvarpsins.

„Við höfum auðvitað verið að fylgja bara Evrópu í þessum málum, í tóbaksvarnarlögunum, það er til að mynda einsleitar umbúðir. Verðlagning er tæki eins og skattlagning í áfenginu sem hefur verið beitt og hefur mikil áhrif. Þetta er ný vara og við þurfum svolítið að fóta okkur í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×