Innlent

Annar ferða­mannanna er látinn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Maðurinn var í íshellinum í skoðunarferð fyrir ferðamenn þegar hann hrundi.
Maðurinn var í íshellinum í skoðunarferð fyrir ferðamenn þegar hann hrundi. Vísir

Annar ferðamannanna sem náð var undan ísfargi á Breiðamerkurjökli í kvöld er látinn. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi. Hinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann og er líðan hans stöðug.

Þetta staðfestir lögreglan á Suðurlandi í færslu á samfélagsmiðlum. 

Fjórir urðu undir ísfargi þegar hellirinn hrundi og var hinum látna og öðrum ferðamanni úr hópnum náð undan ísnum. Hinna tveggja sem urðu undir farginu er enn saknað.

„Mikill fjöldi björgunarfólks og viðbragðsaðila hefur tekið þátt í aðgerðinni. Aðstæður við leitina eru erfiðar og myrkur er nú skollið á. Ekki er talið forsvaranlegt vegna hættu á vettvangi að halda leit áfram í nótt. Leit hefur því verið frestað og verður henni fram haldið að nýju í birtingu í fyrramálið,“ segir í færslu lögreglunnar.

25 manna hópur var við hellinn er hann hrundi í skipulagðri íshellaskoðunarferð fyrir ferðamenn. Hópurinn var á jöklinum ásamt fararstjóra en íshellirinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Flestir voru fyrir utan hellinn þegar hann hrundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×