Íslenski boltinn

Rúnar ó­sáttur eftir sárt tap: „Þeir vita það ekki sjálfir“

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Kristinsson þungt hugsi á hliðarlínunni í dag.
Rúnar Kristinsson þungt hugsi á hliðarlínunni í dag. vísir/Diego

„Við vitum ekki hvenær á að dæma víti og þeir vita það ekki sjálfir,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, svekktur eftir 2-1 tap gegn KA í mikilvægum slag í Bestu deildinni í dag.

Rúnar var sérstaklega óánægður með atvik undir lok leiks, í stöðunni 1-1, þegar boltinn fór í hönd Ívars Arnar Árnasonar í vítateig KA:

„Ég er búinn að skoða þetta atvik. Boltinn fer í löppina á varnarmanninum og svo upp í höndina hans. Það er voða lítið sem hann getur gert í því en maður hefur séð dæmt víti á þetta og að því sé sleppt. En boltinn er á leiðinni á okkar sóknarmann sem stendur rétt fyrir framan opið mark og þá auðvitað kallar maður eftir víti. En það er þeirra að meta það og ég virði þeirra skoðun. Þetta er bara ekki nægilega skýrt,“ segir Rúnar sem fékk gult spjald fyrir mótmæli vegna atviksins.

Klikkuðu á ögurstundu

Í stað þess að Fram fengi víti þá náði KA að tryggja sér sigur í leiknum með dramatísku sigurmarki í blálokin. Það var alls ekki í takti við gang leiksins, að mati Rúnars:

„Mér fannst við vera mjög góðir í fyrri hálfleik, ofan á í flestu og meira með boltann, skapa fullt af góðum stöðum. Í seinni hálfleik var þetta örlítið jafnara en við áttum ekki skilið að tapa þessum leik.

Þetta er dýrt, þegar svona atriði koma upp og þér finnst að þér vegið. En við getum ekkert gert í því. Það sem við getum gert er að verjast betur fyrirgjöfum. Við verðum að verjast betur inni í teig en klikkum einu sinni, á síðustu mínútu, og töpum leiknum fyrir vikið. Jafntefli hefði verið allt í lagi en miðað við hvernig leikurinn var fannst mér við eiga að vinna,“ segir Rúnar.

Stoltur af mjög löskuðu liði

Hann gerði fjölda breytinga á byrjunarliði sínu eftir tapið gegn Breiðabliki í síðustu umferð, en segir ástæður fyrir því:

„Við vorum með mjög laskað lið fyrir leikinn en ég er ofboðslega stoltur af liðinu, hvernig við spiluðum og tókum á þessu. Mér fannst við ef eitthvað er vera betri en KA í dag, og miðað við öll okkar forföll er ég sáttur.

„Jannik er meiddur, Kyle er meiddur, Tryggvi er meiddur og Tiago er meiddur. Már er farinn til útlanda. Það eru fimm byrjunarliðsmenn hjá mér ekki til taks. Við erum búnir að selja tvo leikmenn til útlanda og sá þriðji er á trial. Það eru töluverð skörð höggvin í okkar hóp og breiddin sem við höfðum hefur minnkað töluvert. Brynjar Gauti var að snúa aftur í dag eftir meiðsli og lék frábærlega, og Alex Freyr var mjög tæpur eftir að hafa verið borinn út af á móti Breiðabliki fyrir nokkrum dögum,“ segir Rúnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×