Innlent

Tjald­búðir fluttar upp á jökul

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Slysavarnardeildin á Höfn sér björgunarfólki fyrir mat.
Slysavarnardeildin á Höfn sér björgunarfólki fyrir mat. Vísir/Samsett

Unnið er í teymum við björgunarstarf þar sem hópur björgunarmanna vinnur við að grafa í ísinn og leita að ferðamönnunum tveimur sem saknað er á meðan aðrir hvíla sig.

Jafnframt er verið að flytja búðir austur sem komið verður upp á jöklinum til að hægt sé að setja upp tjöld til að veita björgunarfólki skjól þar sem það kólnar verulega þegar sólin sest.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að Slysavarnardeildin á Höfn í Hornafirði sjái björgunarmönnum fyrir mat á meðan aðgerðir standa yfir.

„Svo verður tíminn að leiða í ljós hvernig þessu vindur fram,“ segir hann.

Sérstakir rústabjörgunargámar voru einnig fluttur austur í dag sem voru meðal annars notaðir í Grindavík í vetur þegar maður féll ofan í sprungu. Í þeim er ljósabúnaður ásamt öðrum verkfærum sem komið gætu að notum við björgunarstarfið. Jón Þór kveðst þó ekki vita hvort þeim hafi þegar verið komið fyrir á jöklinum.

Tveggja er enn saknað eftir að ísveggur hrundi á Breiðamerkurjökli þar sem hópur ferðamanna var í íshellaskoðunarferð ásamt leiðsögumönnum. Tveimur hefur verið náð undan ísnum og eru báðir alvarlega slasaðir. Einn þeirra var fluttur með sjúkraflugi til aðhlynningar í Reykjavík.

Aðstæður við björgunarstarfið mjög erfiðar og erfitt er að koma tækjum upp á jökulinn. Þá fer einnig kólnandi eftir því sem rökkvar. Björgunarstörf fara að mestu leyti fram með handafli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×