Körfubolti

Skýtur af lengra færi en bestu NBA strákarnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark fagnar þriggja stiga körfu í leik á dögunum. Hún hefur farð á kostum í síðustu leikjum.
Caitlin Clark fagnar þriggja stiga körfu í leik á dögunum. Hún hefur farð á kostum í síðustu leikjum. Getty/Justin Casterline

Körfuboltakonan Caitlin Clark heillar flesta sem á hana horfa enda bæði frábær skotmaður og frábær sendingamaður. Það er einkum henni að þakka að áhorf hefur stóraukist á kvennakörfuna í Bandaríkjunum.

Nú hafa menn reiknað út að Clark er að skjóta af miklu lengra færi en öflugustu NBA strákarnir.

Clark er komin í skotfæri rétt fyrir innan miðlínu vallarins eins og við þekkjum svo vel frá því að horfa á Steph Curry spila með Golden State Warriors. Nú er komið í ljós að Clark er að skjóta að meðaltali af lengra færi heldur en sjálfur Curry, besta þriggja stiga skytta allra tíma.

Á sínu fyrsta tímabili í WNBA deildinni þá er hin 22 ára gamla Clark að skjóta þriggja stiga skotum sínum af 29,09 feta færi að meðaltali sem gerir skot að meðaltali af 8,56 metra færi.

Þriggja stiga línan í NBA deildinni er í 23,75 feta fjarlægð frá körfunni (7,24 metrar) en í 22,15 feta fjarlægð frá körfunni í WNBA deildinni (6,75 metrar). WNBA er með sömu þriggja stiga línu og hjá FIBA og þar með hér á Íslandi.

Clark er því að taka sín skot langt fyrir utan þriggja stiga línuna í leikjum sínum með Indiana Fever.

Clark er að skjóta af lengra færi heldur en öflugir skotmenn eins og Trae Young (27,94 fet), Damian Lillard (27,68 fet) og Steph Curry (27,58 fet) hafa náð mest að meðaltali í þriggja stiga skotum sínum á einu NBA tímabili.

Eftir 29 leiki á sínu fyrsta WNBA tímabili þá er Clark með 17,9 stig og 8,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hún hefur hitt úr 33 prósent þriggja stiga skota sinna. Clark er að skora 2,8 þrista að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×