Erlent

Gæslu­varð­hald fram­lengt yfir stofnanda Telegram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Durov í Jakarta árið 2017.
Durov í Jakarta árið 2017. AP/Tatan Syuflana

Dómstóll í Frakklandi samþykkti í gær að framlengja gæsluvarðhald yfir Pavel Durov, öðrum stofnanda samfélagsmiðilsins Telegram, en hann var handtekinn á flugvelli fyrir utan París á laugardag.

Yfirvöld geta haldið Durov í allt að 96 klukkustundir en verða svo að láta hann lausan eða ákæra.

Durov, 39 ára, sætir rannsókn í Frakklandi fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir glæpastarfsemi á Telegram. Handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur honum og þykir nokkuð merkilegt að hann hafi lent í Frakklandi miðað við stöðu mála.

Talsmenn Telegram sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem þeir sögðu fyrirtækið fara að Evrópulögum og að Durov hefði ekkert að fela. Þá væri fáránlegt að ætla að gera eiganda samfélagsmiðils ábyrgan fyrir misnotkun fólks á miðlinum.

Durov er fæddur í Rússlandi en er með ríkisborgararétt í Frakklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann er búsettur í Dúbaí, þar sem höfuðstöðvar Telegram er að finna.

Durov stofnaði Telegram árið 2013 með bróður sínum Nikolai en notendur samfélagsmiðilsins eru nú um 950 milljón talsins og hefur hann meðal annars verið notaður til að dreifa fréttum og falsfréttum af innrás Rússa í Úkraínu.

Yfirvöld í Rússlandi hafa sakað Frakka um að neita þeim um aðgengi að Durov eftir að hann var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×