Innlent

Sýni­leg gasmengun en ekki hættu­leg

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þessi mynd var tekin í nágrenni við Hellu.
Þessi mynd var tekin í nágrenni við Hellu. vísir/telma

Gasmengun mælist í Reykjanesbæ og nágrenni vegna eldgossins sem enn mallar á Reykjanesskaga. Að sögn náttúruvársérfræðings stafar ekki hætta af menguninni.

Fréttastofa hefur fengið ábendingar um sýnilega mengun á Reykjanesskaga og á Suðurlandi.

Björgunarsveitin Skyggnir beinir því til að mynda til íbúa í Vogum að loka gluggum og forðast áreynslu utandyra.

Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi mælst mikil mengun í dag. 

„Gasmökkurinn hefur farið hærra upp í loftið og nær því ekki niður á yfirborðið. Við erum því ekki að mæla sterk gildi. En maður sér mengunina.“

Mengunin komi einnig að miklu leyti frá mosaeldum á svæðinu. „Þetta er bara fínt svifryk frá þeim.“

Jóhanna Malen segir því að ekki sé um hættulega mengun að ræða. 

„Við erum ekki að spá mikilli mengun. Það getur verið aðeins mengun í nótt sem fer þá yfir Keflavík og Reykjanesbæ en miðað við hvernig þetta hefur verið í dag á þetta ekki að fara hátt og vara stutt. Á morgun verður austanvindur og í raun bara Hafnir og hugsanlega Bláa lónið sem gætu orðið fyrir megnun,“ segir Jóhanna Malen. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×