Erlent

Tveggja daga við­ræður um myndun ríkis­stjórnar engu skilað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir voru hissa á því að Macron skyldi boða til kosninga í sumar en ákvörðunin hefur reynst afdrifarík.
Margir voru hissa á því að Macron skyldi boða til kosninga í sumar en ákvörðunin hefur reynst afdrifarík. AP/Teresa Suarez

Pattstaða ríkir enn í pólitíkinni í Frakklandi en Emmanuel Macron Frakklandsforseti neitar ennþá að útnefna forsætisráðherra úr röð vinstrihreyfingarinnar, sem fékk flest atkvæði í þingkosningunum í sumar.

Úrslit kosninganna voru langt í frá afdráttarlaus og enginn flokkur né hreyfing fékk afgerandi umboð, þrátt fyrir að Nouveau Front Populaire (NFP), bandalag vinstriflokka, hafi tryggt sér 180 þingsæti af 577 í seinni umferð kosninganna.

Bandalag miðjuflokka, sem Macron tilheyrir, fékk 159 þingsæti og bandalag hægriflokka 142.

Tveggja daga viðræðum flokksformanna og þingleiðtoga lauk án niðurstöðu og ákvörðun Macron um að fresta því enn að útnefna forsætisráðherra hefur vakið mikla reiði.

Vinstrihreyfingin hafði tilnefnt Lucie Castets, 37 ára hagfræðing og yfirmann fjármála hjá Parísarborg, en það er afstaða forsetans að ríkisstjórn vinstriflokkanna muni umsvifalaust verða lýst vantrausti og því þurfi fleiri að koma að málum.

Styrinn stendur meðal annars um Jean-Luc Mélenchon og vinstriflokk hans Óbeygt Frakkland, sem Macron og fleiri neita að vinna með. Mélenchon og aðrir flokksmenn Óbeygðs Frakklands hafa hótað kæru á hendur forsetanum fyrir tafirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×