Erlent

Á­frýjar á­kvörðun dómara um að vísa leyniskjalamáli Trump frá

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Smith tilkynnti strax í sumar að hann myndi áfrýja málinu. Lögspekingar hafa margir gagnrýnt ákvörðun Cannon.
Smith tilkynnti strax í sumar að hann myndi áfrýja málinu. Lögspekingar hafa margir gagnrýnt ákvörðun Cannon. Getty/Drew Angerer

Saksóknarinn Jack Smith fór þess á leit við áfrýjunardómstól í gær að hann snéri við frávísun dómarans Aileen M. Cannon á dómsmáli gegn Donald Trump, sem varðar meðferð forsetans fyrrverandi á trúnaðargögnum.

Smith var skipaður til að fara með málið af dómsmálaráðherranum Merrick Garland en Cannon vísaði því frá í heild á þeirri forsendu að hann hefði ekki verið rétt skipaður og færi með alltof mikil völd þegar horft væri til þess að þingið hefði ekki fjallað um skipunina.

Cannon, sem var skipuð af Trump, gerði engar athugasemdir við málatilbúnaðinn gegn forsetaframbjóðandanum heldur gerði einungis athugasemdir við skipun Smith, vald hans og titil.

Smith, sem var skipaður „sérstakur saksóknari“ (e. special counsel), sagði í rökstuðningi sínum fyrir áfrýjunardómstólnum að Garland hefði sannarlega haft heimild til að taka ákvörðun um skipunina og að Cannon hefði farið gegn fjölda dómafordæma.

Að sögn Smith hafa dómsmálaráðherrar skipað fjölda sérstakra saksóknara í gegnum áratugina og skipanirnar alltaf verið staðfestar af dómstólum, þar á meðal Hæstarétti. 

Málið varðar, sem fyrr segir, trúnaðargögn sem Trump er ákærður fyrir að hafa tekið ólöglega með sér úr Hvíta húsinu og neitað að afhenda rannsakendum. Yfir 100 slík skjöl fundust á heimili hans.

Cannon hefur áður verið gerð afturreka með ákvörðun í málinu, þegar hún skipaði sérstakan dómara til að fara yfir þau gögn sem voru tekin af heimili Trump. Áfrýjunardómstóll snéri þeirri ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×