Hertha hefur verið á meðal stærri félaga Þýskalands en man fífil sinn fegurri. Liðið er sem stendur í B-deild Þýskalands.

Jón Dagur skrifar undir þriggja ára samning við Herthu Berlín, út leiktíðina 2026 til 2027. Hann er annar Íslendingurinn til að semja við félagið en Eyjólfur Sverrisson var leikmaður Herthu við góðan orðstír frá 1995 til 2003.
Þó nokkur félög sóttust eftir kröftum hins 25 ára gamla Jóns Dags í sumar en Hertha hreppti hnossið. Hann hefur leikið vel fyrir Leuven frá því að hann gekk í raðir belgíska liðsins frá AGF í Danmörku. Vegna óvissu um framtíð hans hefur hann minna spilað í upphafi leiktíðar.
Fastlega má gera ráð fyrir að Jón Dagur verði í landsliðshópi Íslands fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni við Svartfjallaland og Tyrkland. Landsliðshópurinn verður kynntur á morgun, miðvikudag.
Hann skoraði sigurmark Íslands í fræknum 1-0 sigri á Englandi á Wembley í júní og hefur leikið 37 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Hertha Berlín endaði um miðja 2. deildina í fyrra en er með fjögur stig eftir þá þrjá deildarleiki sem liðið hefur spilað á yfirstandandi leiktíð.