Skoðun

Mál- og læsis­eflandi skóla­starf

Sigríður Ólafsdóttir skrifar

Líflegar umræður um skólamál og námsmat hafa verið í samfélaginu síðustu vikur og sitt sýnist hverjum. Sum benda á að nauðsynlegt sé að fylgjast með samræmdum hætti með framförum nemenda og þá sérstaklega í lestri, ritun og stærðfræði. Önnur segja það þröng hæfnisvið því í skólastarfi eigi fyrst og fremst að stuðla að því að börn og ungmenni verði farsælir einstaklingar. Mörg ítreka hversu mikil áhrif félagsleg staða barna hefur á námsframvindu þeirra og því sé óréttlátt að bera saman skóla með ólíku hlutfalli ungmenna sem eiga veikt bakland og skóla með misháu hlutfalli nemenda með fjölbreyttan tungumálabakgrunn.

Í raun er árangur skólastarfs hægt að meta á ýmsan og fjölbreytilegan hátt og sérstaklega þar sem markmið skólastarfs eru mörg og margvísleg. Árangur í námi og kennslu hlýtur þó alltaf að mótast af því hvernig skóladeginum er varið hjá nemendum og lögum samkvæmt ber kennara að taka mið af aðalnámskrá.

Reyndar hefur aðalnámskrá grunnskóla hér á landi sveiflast í gegnum tíðina með ólíkum áherslum, frá því að gefa nákvæm viðmið um þekkingu og hæfni sem nemendur skuli öðlast í hverri námsgrein á hverju skólastigi (1999) yfir í það að hafa sveigjanleika og með ríkulega áherslu á félagslegan þátt menntunar (2011/2013/2016). Gott dæmi um ólíkar áherslur koma fram í skilgreiningu á hugtakinu læsi. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 er læsi skilgreint á eftirfarandi hátt:

Læsi snýst um samkomulag manna um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Það er háð hefð og er því ekki færni sem einstaklingar geta öðlast og beitt óháð stað og stund, menningu og gildum.

Þar er kveðið á um að áður fyrr hafi læsi „.. verið tengt við þá kunnáttu og færni sem fólk þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í letur (ritað) og skilið prentaðan texta (lesið)“. Aðalnámskrá gefur þau skilaboð að læsi feli ekki í sér lesskilning og ritunarfærni, það sé úrelt.

Í PISA-könnunum er þó lesskilningur eitt af þremur meginsviðum sem prófað er í og frammistaða þátttökuþjóða borin saman. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er lesskilningur fólginn í færni í „að skilja, nota, meta, ígrunda og ástunda lestur í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum, þroska þekkingu sína og hæfileika, og að taka þátt í samfélagi“.

Erfitt er að finna samhljóm með lesskilningi sem prófaður er í PISA og læsi sem skilgreint er í aðalnámskrá grunnskóla. Hér ber að hafa í huga að innan menntavísinda eru ýmis fræðasvið með ólíkar áherslur og námsmarkmið. Hvert fræðasvið byggir á ákveðnum tegundum rannsókna sem beinast að ólíkum þáttum skólastarfs.

Málþroska- og læsisfræði

Eitt svið innan menntavísinda tilheyrir málþroska og læsisfræðum. Það er nokkuð nýtt fræðasvið í sögulegu samhengi, en mikil gróska hefur verið í rannsóknum af því tagi víða um heim síðustu 30 ár. Meginhvati að rannsóknum í málþroska og læsisfræðum er að kanna þátt tungumálsins í námi og komast að því hvers konar málnotkun heima og í skólanum er árangursríkust til námsárangurs.

Í raun og veru er staðreyndin sú að ef öll börn myndu læra tungumál eins og ekkert sé og ef öll börn myndu ná góðum tökum á lestri og ritun, eins og nám gerir kröfur um, þá væru rannsóknir innan þessa fræðasviðs ekki svo mikilvægar.

Það var Catherine Snow, nú prófessor emerita við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, sem var meðal þeirra fyrstu til að rannsaka tungumálið sem ung börn fá á heimilum sínum. Rannsókn hennar þótti þá ekki merkileg, því það var trú manna að öll börn fengju sama smábarnamálið og það væri mismunandi greind ungmenna sem ylli því að þau hefðu mismikla færni í tungumálinu.

Annað kom í ljós árið 1975 þegar niðurstöður voru birtar. Svo mikill munur var á tungumálinu sem börnin í rannsókn Snow fengu að þau sem fengu mesta tungumálið í samskiptum við umönnunaraðila sína fengu margfalt meira tungumál en þau sem fengu minnst. Og orðaforði barnanna endurspeglaði málnotkunina, því ríkulegri samskipti þeim mun meiri orðaforða höfðu börnin. Síðan hafa óteljandi rannsóknir víða um heim sýnt sambærilegar niðurstöður.

Orðaforði tungumálsins er ekki bara einn þáttur málþroskans (eins og málfræði og setningafræði) heldur endurspeglar orðaforði þekkingu og reynslu einstaklinga, því með nýrri þekkingu og margs konar upplifunum fylgja ný orð. Það þarf líka margvísleg orð til að skilja, hugsa um og ræða innihaldsrík og flókin málefni.

Orðaforði er því algjörlega samofinn öllu námi. Svo mikilvægur er orðaforðinn í tungumáli skólans að stærð hans - hvort sem hann er mældur hjá leikskólabörnum eða þeim sem eru á miðri grunnskólagöngu, eintyngdum, tvítyngdum eða fjöltyngdum - spáir fyrir um það hversu góðum framförum nemendur taka í lesskilningi þar til þau eru orðin unglingar.

Afleiðingar þess að börn hafa mismikla færni í tungumáli skólans

Rannsóknir í málþroska og læsisfræðum fóru þó ekki almennilega á flug fyrr en 20 árum eftir að Snow birti niðurstöður sínar. Niðurstöður rannsóknanna hafa sterkan samhljóm sem gerir þær traustar. Þær leiða ótvírætt í ljós afleiðingar þess að börn fá misríkuleg málleg samskipti á fyrstu árum ævinnar því á skólaárunum skapast hætta á að frumskógarlögmálið ráði ríkjum: Í leikskólanum skilja börn með góðan orðaforða betur umræður og lestur bóka, þau taka frekar þátt í samtölum og eru virkari í hlutverkjaleikjum með jafnöldrum. Eftir misríkuleg málleg samskipti bæði heima og í leikskóla koma börn síðan missterk inn í grunnskólana. Börn með mikinn orðaforða skilja námsefnið betur, þau eiga auðveldara með að ræða um það sem tekið er fyrir og geta betur komið frá sér þekkingu sinni og hugsun í rituðu máli. Þau taka því hröðum framförum á öllum sviðum námsins. Börn með litla þekkingu í orðaforða skólans skilja minna og því hættir þeim til að vera að einhverju leyti óvirk í leik- og grunnsskólastarfinu. Í grunnskólanum fá þau gjarnan of einhæf verkefni og þá verða framfarir þeirra í náminu hægar.

Þáttur málþroska og læsis í skólastarfi

Eitt af meginmarkmiðum í skólastarfi hlýtur að vera að gefa öllum börnum tækifæri til að auka þekkingu sína á heiminum og færni í að takast á við fjölbreytileg verkefni sem þeirri þekkingaröflun fylgja. Til grundvallar er skilningur á tungumálinu, töluðu og rituðu, færni til að beita tungumálinu þegar málefni skólans eru rædd og skilningur aukinn, og ekki síst færni í að miðla hugsun sinni og þekkingu í rituðu máli. Í málþroska og læsisfræðum er læsi einmitt skilgreint sem færni til að skilja og nota ritað mál í takt við námslegar og samtímalegar kröfur.

Þess vegna hafa rannsóknir í málþroska og læsisfræðum beinst að leik- og grunnskólastarfi sem gefur öllum nemendur tækifæri til að ná góðum tökum á tungumáli skólans þannig að læsisfærni þeirra taki reglulegum framförum. Því er stuðst við náms- og kennsluaðferðir sem hafa reynst árangursríkastar samkvæmt fjölmörgum rannsóknum með ótal mörgum þátttakendum í ýmsum löndum.

Mál- og læsiseflandi skólastarf

Mál- og læsiseflandi skólastarf felur í sér gæðamálnotkun í leik- og grunnskólum, að börn og ungmenni hlusti ekki aðeins á aðra eða lesi það sem aðrir hafa skrifað heldur noti sjálf tungumálið þegar þau ræða um það sem tekið er fyrir hvert sinn í náminu. Á fyrstu árum grunnskólans er börnum kennt að lesa á þann hátt að meginþorri barna nái tökum á lestri. Í grunnskólanum fá nemendur regluleg og tíð tækifæri til að skrifa um það sem þau eru að læra. Mál- og læsiseflandi skólastarf felur einnig í sér markvissa vinnu með orðaforða, í námstextum, umræðum og ritun, því byggt er á upplýsingum um það hvaða orð liggja til grundvallar námsárangri á hverju stigi námsins, það er námsorðaforðinn.

Í Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna eru sett fram þau markmið að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Sérstaklega er kveðið á um að árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift.

Læsisfærni leikur lykilhlutverk fyrir farsæld hvers og eins, að börn og ungmenni geti náð árangri í námi sem gerir þeim kleift að velja sér framhaldsnám og störf út frá áhugasviði. Fyrir samfélagslega virkni þarf að skilja umræður um mikilvæg málefni, geta greint falskar upplýsingar frá þeim sem byggja á traustum grunni, og ekki síst að taka afstöðu til jafnvel flókinna viðfangsefna í samtímanum, innanlands og á heimsvísu.

Farsæld er ekki mikilvægara námsmarkmið en læsi, því læsi er grundvöllur farsældar.

Höfundur er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Námsvarpinu miðla sérfræðingar niðurstöðum rannsókna í málþroska- og læsisfræðum hérlendis og erlendis https://podcasters.spotify.com/pod/show/berglind--axelsdttir/episodes/3-run-mlhlja-og-framburar-hj-brnum-e2hs37v

Grein um mótun lista yfir íslenskan námsorðaforða: Auður Pálsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. (2023). Íslenskur námsorðaforði. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.https://netla.hi.is/greinar/2023/alm/09.pdf




Skoðun

Skoðun

Börnin á Gaza

Elín Björk Jónasdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Að búa í sveit

Ása Valdís Árnadóttir,Björn Kristinn Pálmarsson,Dagný Davíðsdóttir,Ragnheiður Eggertsdóttir,Smári Bergmann Kolbeinsson skrifar

Skoðun

Spaðar

Dofri Hermannsson skrifar

Sjá meira


×