Innlent

Engar fundar­gerðir um tjón á kvíum og einn dagur í starfs­þjálfun

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Matvælastofnun gerði fyrr í sumar sjö athugasemdir, þar af fimm alvarlegar, í framhaldi af reglubundinni úttekt hjá fiskeldisfyrirtækinu Arctic Sea Farm í Dýrafirði.
Matvælastofnun gerði fyrr í sumar sjö athugasemdir, þar af fimm alvarlegar, í framhaldi af reglubundinni úttekt hjá fiskeldisfyrirtækinu Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Vísir/samsett mynd

Matvælastofnun fann sjö frávik, þar af fimm alvarleg, í reglubundinni úttekt stofnunarinnar á starfstöð fiskeldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm hf. í Dýrafirði í vor. Að mati stofnunarinnar voru alvarleg frávik frá gæðakröfum hvað varðar eldisbúnað, þjálfun starfsfólks, gæðahandbók og innra eftirlit og úttektir. Þá gerir MAST einnig athugasemdir við eftirlit og viðgerðir fyrirtækisins á netapokum og við verklagsreglur.

Þetta kemur fram í skoðunarskýrslu stofnunarinnar var birt í lok júní en eftirlitsmenn fiskeldisdeildar MAST mættu í eftirlit dagana 22. til 24. apríl á skrifstofu fyrirtækisins á Ísafirði. Skoðuð voru og tekin afstaða til tólf skoðunaratriða af tuttugu og tveimur. Þar af gerðar kröfur um úrbætur í sjö skoðunaratriðum, þar af fimm alvarleg frávik og tvö minna alvarleg líkt og áður segir.

MAST hefur áður gert alvarlegar athugasemdir við starfstöðvar fyrirtækisins, til að mynda á Patreksfirði í fyrrasumar. 

Sjókvíaeldi á Íslandi hefur verið umdeilt og hafa fleiri fyrirtæki í þeim geira sætt gagnrýni. Umdeilt lagareldisfrumvarp matvælaráðherra sem ætlað er að taka betur utan um málaflokkinn náði til að mynda ekki fram að ganga á vorþingi.

Umbeðin gögn bárust ekki

Við úttekt á eldisbúnaði kallaði Matvælastofnun kom í ljós að ekki voru til staðar hjá fyrirtækinu neinar skráningar vegna tjóns á kvíum, þrátt fyrir að verklag geri ráð fyrir að það skuli gert.

„Í verklagi þessu um frávik kemur fram að fundagerð skuli haldin vegna gæða og öryggisfunda og vistuð í EQS. Matvælastofnun kallaði eftir þessum fundargerðum og þau svör bárust að engin formleg fundargerð er haldin en áherslupunktar sem þarf að vinna áfram eru skráðir í sérstakt skjal. Umrætt skjal barst ekki. Jafnframt bárust ekki úrbótaáætlanir vegna frávika,“ segir í skýrslunni en þetta var eitt þeirra atriða sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við.

Ónæg fræðsla og þjálfun á einum degi

Þá voru ekki til staðar skipurit fyrir rekstrarleyfi né áætlun um móttöku nýrra starfsmanna sem stofnunin metur sem alvarlegt frávik. Þjálfun starfsfólks sé jafnframt ábótavant. „Það vekur athygli stofnunarinnar að þjálfun starfsmanna klárast í öllum tilfellum öll innan sama dags. Að mati Matvælastofnunar er þjálfunin viðamikil og ekki verður séð að hún geti rúmast innan eins dags. Sé það raunin er ljóst að fræðsla sé ekki nægjanlega umfangsmikil,” segir meðal annars um þetta atriði skýrslunni.

Myndin er af sjókví í Patreksfirði og tengist fréttinni ekki beint.Vísir/Einar

Alvarleg frávik reyndust einnig á innra eftirliti þar sem ekki reyndist vera til staðar virkt innra eftirlit sem ætlað sé að tryggja eftirlit með starfsemi fiskeldisstöðvar Þá voru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við sannprófun en engin sannprófun hafði verið framkvæmd síðan í nóvember 2023 en enni fylgdi engin undirritun frá forsvarsmanni eldisstöðvar né tímasett úrbótaáætlun. „Sannprófunarhópur er ekki óháður en gæðastjóri sá einn um síðustu sannprófun sem er ekki skv. verklagi. Það var því enginn óháður aðili sem sannprófaði þau kerfi og þær verklagsreglur sem settar eru fram í gæðahandbók,” segir um innri úttektir og sannprófun.

Minnihátar athugasemdir um strok

Atriðin tvö þar sem fundust frávik, sem þó voru ekki talin alvarleg, vörðuðu eftirlit og viðgerðir á netapokum og verklagsreglur. Kallaði stofnunin eftir ástands- og viðgerðarskýrslu vegna eftirlits og viðgerða á netapokum, en þau gögn sem bárust frá fyrirtækinu innihéldu ekki þær upplýsingar sem krafa er gerð um í reglugerð. Þá var verklagsreglum ábótavant hvað varðar upplýsingar um móttöku seiða og slátrun á fiski.

Úttekt á viðbragðsáætlun vegna stroks var metin „í lagi“ í úttektinni, en minniháttar athugasemdir gerðar við viðbragðsáætlanir vegna stroks. Meðal annars segir í skýrslunni að ekki þurfi að liggja fyrir „rökstuddur grunur um strok,“ það nægi að fyrirtækið telji sig hafa „ástæðu til að ætla að hann hafi misst eldisfisk úr fiskeldisstöð og skal hann þá tilkynna atburð,“ líkt og það er orðað í athugasemd MAST. Forgangsmál ætti að vera að leita að orsökum og koma í veg fyrir að fiskur sleppi, sem sé mikilvægara en þar næst í viðbragðsáætluninni skuli vera að tilkynna um strok til viðeigandi stofnanna.

Fram kemur í skýrslunni að við regubundna eftirlitsúttekt hafi verið kallað eftir köfunarskýrslum allra sjókvía á eldisvæðunum á prentuðu og rafrænu formi. Eftirlitsmenn skoðuðu allar skýrslur vegna neðansjávareftirlits og allar atvikaskráningar hjá Arctic Sea Farm hf. fyrir tímabilið frá 1. janúar í fyrra til apríl á þessu ári. Farið var yfir þjálfunarskrá starfsmanna, viðgerðir á netpokum, viðbragðsáætlanir, verklagsreglur, innra eftirlit, sannprófun og ýmis önnnur gæðaskjöl og skráningar, að því er lesa má úr skýrslunni. Þá kallaði Matvælastofnun eftir nánari upplýsingum og útskýringum vegna eftirlitsins og tekið hafi verið tillit til þeirra gagna og útskýringa fyrirtækisins sem bárust MAST við gerð eftirlitsskýrslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×