Lífið

Ís­lendingar ginn­keyptir fyrir pólitískum sam­særis­kenningum

Boði Logason skrifar
Stjórnmálafræðiprófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir eru að byrja með nýtt hlaðvarp um samsæriskenningar.
Stjórnmálafræðiprófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir eru að byrja með nýtt hlaðvarp um samsæriskenningar. Mynd/Vilhelm

Íslendingar eru ginnkeyptari fyrir pólitískum samsæriskenningum heldur íbúar í öðrum ríkjum Norðurlanda. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrsta þætti Skuggavaldsins en í þessu nýja hlaðvarpi ræða stjórnmálafræðiprófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir saman um hvaðeina er viðkemur samsæriskenningum.

Íslendingar eru til dæmis líklegri til þess að gruna bandarísk stjórnvöld um græsku varðandi hryðjuverkaárásina 11. september 2001 og þeir óttast í meira mæli en aðrir íbúar Norðurlanda að illvirkjar ætli sér að skipta út hinni kristnu Evrópu fyrir Íslam.

Á hinn bóginn eru Íslendingar ólíklegri til þess að trúa samsæriskenningum um heilsufarsmál og misferli í vísindum. Íslendingar eru þannig ekki trúaðir á grunsemdir um að kórónaveirunni hafi verið dreift að undirlagi illvirkja eða að bólusetningar valdi einhverfu, nokkuð sem er útbreiddara í öðrum löndum.

Hlusta má á þáttinn hér:

Aðspurð hvort að þessar niðurstöður komi á óvart segir Hulda:

„Já þær gerðu það í fyrstu því ég átti ekki von á að sjá svona mikinn mun eftir því hvort samsæriskenningarnar væru af pólitískum toga eða vísindalegum, því við sjáum það ekki endilega hjá öðrum þjóðum. Skýringin er líklega sú að pólitísk tortryggni hefur ekki alveg náð sér á strik eftir efnahagshrunið á meðan trú Íslendinga á vísindum og heilbrigðiskerfinu hefur ávallt verið mikil. Talsvert af þessum gögnum var safnað í COVID faraldrinum og við vitum að þá ríkti mikið traust og ánægja til vísinda og heilbrigðisstarfsfólks.“

En hvers vegna hlaðvarp um samsæriskenningar?

„Samsæriskenningingum hefur hratt vaxið fiskur um hrygg samfara örum samfélagsbreytingum og hafa ekki bara breiðst skarpt út að undanförnu heldur hafa þær núorðið mun meiri áhrif í bæði stjórnmálum og almennri samfélagsumræðu heldur en verið hefur síðustu áratugi“, segir Eiríkur og heldur áfram: „Áhrifa samsæriskenninga gætti til að mynda í tengslum við Brexit í Bretlandi, í stjórnartíð Donalds Trump í Bandaríkjunum og í kringum kórónaveirufaraldurinn á heimsvísu, svo dæmi séu tekin.“

Hulda bendir þó á að samsæriskenningar séu ekki nýjar af nálinni, heldur hafa þær fylgt manninum frá öndverðu og nærast á þörf til að greina hulið skipulag í óreiðu. Þær hafi þó óumdeilanlega orðið meira áberandi að undanförnu samfara tæknibyltingu í samskiptum og upplýsingadreifingu.

Í fyrsta þætti af Skuggavaldinu fjalla Eiríkur og Hulda um norrænar samsæriskenningar, þar sem meðal annars morðið á Olaf Palme er skoðað í þaula.Mynd/Vilhelm

Eiríkur nefnir að samsæriskenningar spanni víðfema flóru, allt frá hinu léttvæga og fyndna til hins alvarlega, jafnvel hættulega. Fólk skemmtir sér yfir kenningum um að eðlufólk úr geimnum stýri heiminum en meiri þungi er yfir ýmsum frægum kenningum á borð við djúpríkiskenninguna í Bandaríkjunum, ótta um heimsyfirráð Gyðinga eða ráðagerðir Íslamistar um menningarlega yfirtöku í Evrópu.

Í máli Huldu kemur fram að samsæriskenningar geta grafið undan samfélagsgerðinni en stundum opinbera þær hulda valdaþræði og veita yfirvöldum þar með æskilegt viðnám.

Í þessum fyrsta þætti sem nú er aðgengilegur á hlaðvarpsveitum ræða þau Hulda og Eiríkur um Norrænar samsæriskenningar.

Stórir atburðir kalla gjarnan fram samsæriskenningar

Í kjölfar morðsins á Olaf Palme forsætisráðherra Svíþjóðar þann 28. febrúar árið 1986 spruttu fram allra handa samsæriskenningar, sem fengu vængi við það hvað illa gekk að upplýsa málið. Ýmsir illvirkjar voru kallaðir til sögunnar, til dæmis hryðjuverkasveitir Kúrda og aðskilnaðarstjórnin í Suður Afríku.

 Glæpasagnahöfundurinn Stieg Larsson gaf til dæmis í skyn að suður-afrískar öryggis- og leyniþjónustur hafi staðið á bak við morðið fyrir milligöngu sænsks málaliða sem aðhylltist harða hægri stefnu.

Í þættinum lýsa Eiríkur og Hulda því hvernig Norðurlöndin misstu sakleysi sitt í kjölfar morðsins á Palme og urðu aldrei söm eftir. Rannsóknin reyndist tröllvaxin og hafa 130 einstaklingar játað morðið fyrir ótal rannsakendum.

Helgireitur sem má ekki raska

Sömu sögu má segja af Estonia slysinu þegar samnefnd farþegaferja sökk á leið frá Tallinn í Eistlandi til Stokkhólms í Svíþjóð á milli 27.-28. september árið 1994.

Margir áttu örðugt með að kyngja því að aðeins slæmt veður hafi valdið svo miklum skaða og beindu margir sjónum að meintum leynilegum vopnaflutningi frá tiltölulega nýföllnum Sovétríkjunum. Sumir beindu fingri að breskum stjórnvöldum en aðrir töldu að rússneskt tundurdufl frá kafbáti hafi grandað ferjunni. Það varð sem vatn á myllu samsæriskenningasmiða að yfirvöld ákváðu að draga ekki skipið á land heldur var hafsbotninn þar sem skipið liggur skilgreint sem helgireitur sem ekki megi raska.

Díana prinsessa og Kurt Cobain

Í máli Huldu og Eiríks kemur einnig fram að langvarandi samsæriskenningar hafi lifað á Norðurlöndum um Frímúrara og Gyðinga og að djúpstæður ótti hafi verið í gegnum aldir í garð allskonar satanískra hulduhópa. Til að mynda voru lengi á kreiki sögur um að leynihópar fórnuðu kristnum börnum og sendu blóð þeirra og lík til Tyrkland –– til svokallaðs Hunda-Tyrklands eins og sagt var –– til að greiða aldagamla skuld við Ottómanveldið.

Í næstu þáttum munu Eiríkur og Hulda fjalla um kenningar í kringum andlát Díönu prinsessu, ótta við að illvirkjar ætli sér að koma á nýrri heimskipan og um Qanon samsæriskenninguna svo eitthvað sé nefnt. Þá mun dauða Kurt Cobain bera á góma. 

Eiríkur og Hulda segja að Skuggavaldið fjalli vítt og breitt um samsæriskenningar í sögu og samtíð en áhugi almennings og áhyggjur af fyrirbærinu hefur vaxið svo nálgast siðfár á köflum.

Fleiri opna hlaðvarpsþætti má hlusta á á hlaðvarpssíðu Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×