Enski boltinn

Alisson Becker var með í ráðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giorgi Mamardashvili fagnar í leik með spænska félaginu Valencia.
Giorgi Mamardashvili fagnar í leik með spænska félaginu Valencia. Getty/Aitor Alcalde

Fyrsti leikmaðurinn sem Liverpool kaupir í stjóratíð Arne Slot er georgíski markvörðurinn Giorgi Mamardashvili.

Liverpool gekk í gær frá kaupunum á Mamardashvili frá spænska félaginu Valencia.

Slot fær leikmanninn þó ekki til sín fyrir sumarið 2025. Mamardashvili mun spila áfram með Valencia á þessu tímabili.

Mamardashvili kostar Liverpool 25 milljónir punda auk mögulega fjögurra milljóna til viðbótar í árangurstengdum greiðslum. Þetta gæti því endað í 29 milljónum punda eða 5,2 milljörðum króna.

Hinn 23 ára gamli Mamardashvili hefur spilað með Valencia frá árinu 2021. Hann sló í gegn með georgíska landsliðinu á EM í Þýskalandi í sumar.

Mamardashvili hefur spilað alla leiki Valencia undanfarin tvö tímabil og þykir mjög öflugur markvörður.

Alisson Becker og Caoimhín Kelleher verða áfram markverðir Liverpool á þessari leiktíð en með kaupunum á Mamardashvili eru forráðamenn Liverpool að hugsa til framtíðar þegar annað hvort Alisson eða Kelleher yfirgefa félagið.

Breska ríkisútvarpið hefur heimildir fyrir því að Alison hafi verið með í ráðum og styðji þessi kaup.

Alison er þó aðeins 31 árs gamall sem er ekki gamalt fyrir markvörð. Samningur Brasilíumannsins rennur út sumarið 2027 þegar hann verður á 35. aldursári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×