Veður

Lægð beinir norð­lægum vindum yfir landið

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir hita sex til fjórtán stig að deginum, hlýjast sunnanlands.
Gera má ráð fyrir hita sex til fjórtán stig að deginum, hlýjast sunnanlands. Vísir/Vilhelm

Skammt suðaustur af landinu er nú hægfara lægð sem beinir norðlægum vindum yfir landið. Úrkomusvæði lægðarinnar mun þokast yfir austanvert landið og mun því rigna á þeim slóðum.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að það verði bjart með köflum og yfirleitt þurrt vestanlands. Áfram milt veður að deginum, einkum syðra. Gera má ráð fyrir hita sex til fjórtán stig að deginum, hlýjast sunnanlands.

„Lægðin þokast austur á morgun og kemur ekki meira við sögu, en vindur verður vestlægari og birtir víða til. Önnur lægð nálgast annað kvöld af Grænlandshafi og fer að rigna á Vestfjörðum um kvöldið. Suðlæg átt og víða vætusamt dagana þar á eftir, en spáð er úrhellisrigningu á sunnanverðu landinu á laugardag.

Áfram má reikna með gosmóðu víða á Reykjanesskaga og viðkvæmum því bent á að forðast áreynslu utandyra,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vestlæg átt, 3-10 m/s og bjart með köflum, en lítilsháttar væta við norður- og austurströndina. Þykknar upp vestanlands um kvöldið. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á föstudag: Vaxandi suðlæg átt, 8-15 m/s síðdegis, hvassast vestast. Væta norðvestantil, en annars skýjað að mestu, en fer að rigna sunnan- og vestantil um kvöldið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag: Ákveðin suðaustanátt og rigning, víða talsverð úrkoma á sunnanverðu landinu, en úrkomulítið norðaustanlands. Hlýtt í veðri.

Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir suðlæga eða breytilega átt með rigningu víða á landinu og heldur kólnandi veður.

Á þriðjudag: Líklega suðvestlæg átt með skúrum og svölu veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×