Innlent

Hnullungar á fleygi­ferð: „Ég man ekki eftir öðru eins“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mikið hefur verið um grjóthrun í sumar að sögn bæjarstjóra.
Mikið hefur verið um grjóthrun í sumar að sögn bæjarstjóra. vísir

Bæjarstjóri Bolungarvíkur segir mikinn mun á Óshlíðinni suðaustan við bæinn vegna grjóthruns í sumar. Fólki er ráðlagt að fara varlega. 

„Þetta er ágætis áminning um það hvers vegna það eru göng undir Óshlíðinni,“ segir Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri sem man ekki eftir því að hafa séð jafn mikla breytingu á hlíðinni milli mánaða. Bryndís Elsa Guðjónsdóttir kynningarfulltrúi bæjarins tók eftirfarandi myndband í gær:

„Ég hjóla nú þarna reglulega. Það er æðislega gaman að fara, fallegt svæði. Ég var búinn að vera í fríi og hafði ekki komið þarna í þrjár eða fjórar vikur, en það var mikill munur. Ég man ekki eftir öðru eins. Mér er óljúft að segja það en það hefur varla verið sól í Bolungarvík í sumar, þótt það sé hlutverk okkar bæjarstjóranna að ljúga til um veður,“ segir Jón Páll og hlær.

Hann útskýrir að grjóthrunið fylgi alla jafnan mikilli úrkomu. Þetta viti heimamenn sem séu varkárari eftir mikla vætutíð. Bæjaryfirvöld vöruðu við grjóthruninu á Facebook, „ráðlegt að hafa eyru og augu opin,“ segir í færslu. 

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.Vísir/Vilhelm

„Það hefur verið óvenjumikið grjóthrun. Ég auglýsi bara eftir Hollywood-leikstjóra til að taka hér upp næstu heimsendamynd. Þetta er staðurinn.“

Óshlíðargöngin voru opnuð árið 2010. Á þeim tíma hefur mikið breyst í umhverfinu, segir Jón Páll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×