Enski boltinn

Chiesa fyrsti maðurinn sem Slot fær

Sindri Sverrisson skrifar
Federico Chiesea verður í treyju númer 14 hjá Liverpool.
Federico Chiesea verður í treyju númer 14 hjá Liverpool. Liverpool FC

Liverpool hefur gengið frá kaupum á ítalska kantmanninum Federico Chiesa frá Juventus. Kaupverðið nemur tíu milljónum punda, auk 2,5 milljóna punda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Chiesa, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir samning til fjögurra ára við Liverpool.

Hann er fyrsti leikmaðurinn sem kemur til Liverpool eftir að Arne Slot tók við sem stjóri félagsins í sumar. Félagaskiptaglugginn á Englandi lokast annað kvöld. Áður hafði félagið keypt markvörðinn Gi­orgi Mamardashvili frá Valencia en lánað hann jafnharðan aftur til Spánar.

Chiesa var í stóru hlutverki með ítalska landsliðinu þegar það varð Evrópumeistari árið 2021 með sigri gegn Englandi í vítaspyrnukeppni á Wembley.

Hann var valinn í lið ársins á Ítalíu eftir fyrsta tímabilið sitt með Juventus, 2020-21, en meiddist illa í hné í janúar 2022 og þurfti að gangast undir aðgerð.

Hann skoraði níu mörk í 33 deildarleikjum með Juventus á síðustu leiktíð og átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×