Veður

Tals­verð úrkomuákefð: Varað við skriðu­föllum víða

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Arnarstapi á snæfellsnesi. Úrkomuský safnast upp yfir snæfellsnesi núna og er gert ráð fyrir töluverðri úrkomu í kvöld og fram yfir helgi. Mynd úr safni.
Arnarstapi á snæfellsnesi. Úrkomuský safnast upp yfir snæfellsnesi núna og er gert ráð fyrir töluverðri úrkomu í kvöld og fram yfir helgi. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Mikil bleyta hefur safnast í jarðvegi á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og á Snæfellsnesi í sumar og er svæðið því mjög viðkvæmt fyrir komandi úrkomu sem fylgir lægð sem leggst yfir vestanvert landið í kvöld. 

Veðurstofa Íslands varar því við aukinni hættu á skriðuföllum og vatnavöxtum á fyrrnefndum svæðum eftir því sem líður á helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Veðurstofu Íslands

Talsverð úrkomuákefð

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á vestanverðu landinu fyrir morgundaginn og laugardag en gert er ráð fyrir töluverðri úrkomu. 

„Lægð kemur að landinu vestanverðu seint í kvöld, fimmtudaginn 29. ágúst, sem ber með sér talsverða úrkomuákefð á Vesturlandi. Gera má ráð fyrir talsverðri rigningu eða vætu þegar lægðin og lægðardragið fer yfir,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar. 

Gera má ráð fyrir samfelldri úrkomu á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og Snæfellsnesi fram á laugardag þegar annað úrkomuskot kemur að landinu sunnanverðu af álíka mikilli ákefð. 

Úrkomumikið sumar ekki farið fram hjá neinum

„Því verður nær samfelld úrkoma á Vesturlandi og Suðurlandi fram yfir helgi,“ segir í tilkynningunni og er gert ráð fyrir tæplega 140 mm uppsafnaðri úrkomu á sunnanverðum Vestfjörðum en 155 mm á Snæfellsnesi.

„Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að þetta sumar hefur rignt mikið og má segja að það hafi einkennst af vætu í nær öllum landshlutum. Í byrjun júlí var mikið vatnsveður á Vesturlandi, og svipar þessari spá mikið til veðursins sem var þá. 

Síðustu daga og vikur hefur verið væta á þeim svæðum sem nefnd hafa verið, sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og á Snæfellsnesi. Nú er því meiri bleyta til staðar í jarðvegi á þessum svæðum en var í byrjun júlí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×