Miðbæjarathvarfið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og lögreglu og fengu þau athvarf í safnaðarheimili dómkirkjunnar á menningarnótt. Um er að ræða verklag sem viðhaft er á viðburðum þar sem líklegt þykir að börn- og unglingar safnist saman.
„Þá erum við með félagsráðgjafa þar inni og starfsmenn félagsmiðstöðva og lögreglu sem taka á móti þeim unglingum sem gönguteymin koma með inn. Þetta eru þá börn sem þurfa á aðstoð að halda vegna ölvunar eða annarra vandamála,“ segir Andrea Marel Þorsteinsdóttir, deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg.
Mjög ölvuð í hættu
Athvarfið var þétt setið á menningarnótt og voru börnin sem nýta þurftu þjónustuna allt niður í þrettán ára.
„Því miður eru þau börn sem við erum að taka á móti mjög illa á sig komin. Mjög ölvuð, jafnvel ósjálfbjarga og eru bara í mikilli hættu.“
Sterkt áfengi verði fyrir valinu
Hún segir börnin drekka sterkt áfengi og jafnvel landa.
„Landinn hefur nýlega verið að koma aftur og það er mjög hættulegt því þau eru að verða veik af þessu áfengi sem þau eru að drekka.“
Og segist Andrea vita til þess að börnin kaupi áfengi meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Byrjað var að veita þjónustuna um klukkan hálf sex á laugardaginn og segir Andrea að stuttu eftir opnun hafi þau tekið á móti fyrsta barninu.
„Það þarf líka að hafa í huga að það er ýmislegt að gerast snemma um kvöld. Þetta er ekki bara seint um kvöld eða í kringum flugeldasýninguna. Við erum strax að byrja að vera vör við alvarleg vandamál mjög snemma dags.“

Drykkja unglinga hafi aukist milli ára auk hnífaburðar og hótana.
„Við vorum búin að ná góðum tökum á þessu og þetta var orðin ákveðin jaðarhegðun hjá börnum á grunnskólastigi. En núna því miður er þetta að verða algengara og algengara og ég held að við sem samfélag þurfum að taka höndum saman og stemma sigu við þessari þróun.“