Fótbolti

Kærir UEFA fyrir að nota nýja keppnisfyrirkomulagið án leyfis

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dregið var í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í dag.
Dregið var í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í dag. UEFA

Síleskur íþróttafræðingur hefur kært evrópska knattspyrnusambandið UEFA fyrir að nota keppnisfyrirkomulag sem hann kveðst hafa fundið upp.

UEFA hefur tekið upp nýtt fyrirkomulag í Meistara-, Evrópu- og Sambandsdeildinni, þar sem liðum er ekki skipt niður í riðla heldur öllum raðað í 36 liða deild. 

Þau mætast ekki öll innbyrðis heldur fær hvert lið átta leiki og safnar stigum eftir árangri. Efstu átta liðin komast beint áfram í úrslitakeppni, næstu sextán lið spila umspilsleik um sæti í úrslitakeppni en síðustu tíu liðin detta úr leik. 

Nánar má lesa um fyrirkomulagið hér, dregið var í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í dag en niðurstöður úr drættinum má sjá hér fyrir neðan. Dregið verður í Evrópu- og Sambandsdeildina á morgun. 

Þetta nýja fyrirkomulag hefur verið nefnt svissneska leiðin af UEFA þar sem það svipar mikið til þess sem þekkist í svissneskum skákmótum, en er þó ekki alveg eins.

Leandro Shara, síleskur íþróttafræðingur, heldur því fram að hann hafi fundið keppnisfyrirkomulagið upp og eigi skilið viðurkenningu UEFA. Hann hafi þróað það síðan árið 2006 og kynnt það margsinnis síðan 2013, bæði á einkafundum með UEFA og á opinberum ráðstefnum. Þá hefur hann einnig unnið með síleska knattspyrnusambandinu við að hrinda því í framkvæmd í keppnum þar í landi.

Shara hefur kært UEFA fyrir að nota fyrirkomulagið án hans leyfis og brjóta gegn höfundarrétti. Hann hefur einnig farið mikinn í gagnrýni á UEFA á samfélagsmiðlum. 

Hann krefst þess í kærunni að MatchVision, fyrirtæki hans, og þremur starfsmönnum þess verði boðið á viðburði UEFA til að tala um fyrirkomulagið sem þeir fundu upp og þeim verði greitt fyrir höfundarréttinn.

UEFA hafði til hádegis í dag að bregðast við kröfunum en gerði það ekki og segir engan fót fyrir málflutningi Shara. Lögsóknarferli er því framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×