Enski boltinn

Vissi ekki að pabbi sinn hefði skorað á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Federico Chiesa sést hér kominn i Liverpool búninginn en til hægri má sjá föður hans Enrico Chiesa fagna marki sínu fyrir ítalska landsliðið sem hann skoraði á Anfield 1996.
Federico Chiesa sést hér kominn i Liverpool búninginn en til hægri má sjá föður hans Enrico Chiesa fagna marki sínu fyrir ítalska landsliðið sem hann skoraði á Anfield 1996. Getty/Nikki Dyer/Paul Mcfegan

Federico Chiesa var kynntur í gær sem nýr leikmaður Liverpool og þessi 26 ára ítalski landsliðsmaður var einnig tekinn í viðtal á miðlum félagsins.

Meðal annars rifjaði spyrillinn upp frægt mark hjá föður Federico, Enrico Chiesa.

EM í Englandi 1996

Faðir Federico skoraði nefnilega fyrir ítalska landsliðið þegar hann keppti með liðinu á EM í Englandi í júní 1996. Þetta var eitt af sjö mörkum Enrico Chiesa fyrir landsliðið en þrjú þau fyrstu komu einmitt þetta sumar.

Markið sem um ræðir skoraði Enrico í leik gegn Tékkum á Anfield leikvanginum, heimavelli Liverpool. Federico fæddist síðan í október 1997 eða rúmu ári síðar.

Þegar Federico fékk að sjá markið þá mundi hann eftir markinu en áttaði sig aldrei á því hvar pabbi hans var að spila.

„Ég þekki þetta mark“

„Ég man eftir þessu marki. Ég þekki þetta mark,“ sagði Federico Chiesa strax þegar hann sá markið.

„Hann sagði mér aldrei frá því að hann hafi skorað þetta mark á Anfield. Hann sagði mér ekki frá því. Hann vill líka voðalega lítið tala um Evrópumótið því ég segist alltaf hafa unnið EM en hann vann aldrei EM,“ sagði Chiesa léttur.

Með mynd af fögnuðinum

„Við erum með mynd heima af honum að fagna eftir að hafa skorað þetta mark. Ég hafði samt ekki hugmynd um það að þetta hafi verið á Anfeld,“ sagði Chiesa

„Þetta er frábær minning fyrir mína fjölskyldu og fyrir föður minn. Ég held því að pabbi sé ánægður með það að ég sé að skrifa undir hjá Liverpool,“ sagði Chiesa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×