Viðskipti innlent

Pálmasynir selja IKEA-starfsemina í Eystra­salts­löndunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sigurður Gísli Pálmason segir tólf ára rekstur í Eystrasaltsríkjum hafa gengið vel. Hann og Jón bróðir hans eiga Miklatorg hf. sem rekur IKEA hér á landi til helminga.
Sigurður Gísli Pálmason segir tólf ára rekstur í Eystrasaltsríkjum hafa gengið vel. Hann og Jón bróðir hans eiga Miklatorg hf. sem rekur IKEA hér á landi til helminga. Vísir/fréttir Stöðvar 2

Þeir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir hafa selt rekstur IKEA í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Þeir munu áfram reka IKEA verslunina á Íslandi.

Frá þessu er greint á vef IKEA. Eignarhaldsfélagið Inter IKEA Group mun framvegis reka þrjár verslanir í Eystrasaltsríkjunum.

Þeir Jón og Sigurður Gísli opnuðu fyrstu IKEA verslunina í Eystrasaltslöndunum árið 2010 þegar IKEA-verslun var opnuð í Litháen. Þeir opnuðu síðan verslanir í Eistlandi og Lettlandi tveimur árum síðar. 

Í tilkynningu segir að starfsemin á svæðinu sé sterk, með 1.450 starfsmenn og 6,6 milljónir heimsókna á síðasta ári. 

„Eftir tólf góð ár erum við ánægðir með að afhenda reksturinn viðskiptafélögum um langt skeið, Inter IKEA Systems B.V. Það eru spennandi tímar framundan með mörgum tækifærum til að stækka og styrkja IKEA-merkið í Eystrasaltsríkjunum,“ er haft eftir Sigurði Gísla Pálmasyni stjórnarformanni Hofs sem hefur rekið starfsemina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×