Innlent

Dæmd fyrir kyn­ferðis­leg skila­boð til ó­lög­ráða drengs

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. getty

Kona hefur verið dæmd til sextíu daga skilorðsbundins fangelsis fyrir blygðunarsemisbrot sem fólst í óviðeigandi skilaboðum til ólögráða drengs á Instagram.

Í dómi héraðsdóms Reykjaness kemur fram að konan hafi verið ákærð þann 13. júní 2024. Hún hafi ítrekað viðhaft kynferðislegt og óviðeigandi orðbragð við drenginn en ekki kemur fram á hvaða aldri hann hafi verið á þeim tíma.

„U just turned me on, I got toys if I need it, You look hot,“ eru dæmi um skilaboð sem konan á að hafa sent á drenginn. Var hún talin hafa með orðbragði sínu sært blygðunarsemi drengsins með lostugu athæfi, skilaboðin talin vanvirðandi, ósiðleg og særandi. 

Háttsemi konunnar var af ákæruvaldi upphaflega talin varða við ákvæði hegningarlaga um kynferðislega áreitni en fallið var frá þeirri heimfærslu og ákært fyrir blygðunarsemisbrot. Konan játaði afdráttarlaust sök í málinu.

Foreldri drengsins krafðist fyrir hönd hans miskabætur upp á tvær milljónir króna sem konan krafðist að yrðu lækkaðar til muna. Á það var fallist og hún dæmd til að greiða 300 þúsund krónur í miskabætur ásamt því að vera dæmd til sextíu daga skilorðsbundins fangelsis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×