Flugþjóðin er ný þáttaröð þar sem fjallað er um flugstarfsemi Íslendinga en meðal fárra þjóða skipar flugið jafn stóran sess í samfélaginu, bæði sem atvinnuvegur og áhugamál.
Fyrsti þátturinn, Upphafsárin, fjallar um fyrstu tilraunir Íslendinga til stofnunar flugfélags, árið 1919 og næst árið 1928, og þá draumsýn upphafsmanna að gera flugið að raunhæfum samgöngumáta þjóðarinnar. Það heppnaðist þó ekki fyrr en í þriðju tilraun árið 1937, með stofnun Flugfélags Akureyrar, sem markar upphaf samfellds atvinnuflugs á Íslandi.

„Við erum mikil flugþjóð og höfum verið í raun í áratugi,” segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands og flugmaður hjá Icelandair.
„Flugstarfsemin á Íslandi skilar mjög miklu til þjóðarbúsins, meira en í flestum öðrum löndum,” segir Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða og stjórnarformaður Icelandair.

Annað dæmi er umfangsmikil alþjóðastarfsemi Air Atlanta, sem sinnir fjölbreyttu farþega- og fraktflugi á breiðþotum víða um heim.
„Það er gríðarleg þekking og sérhæfing á flugi hérna heima,” segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta.

„Við erum fyrsta kynslóðin sem gerir þetta starf að ævistarfi,“ segir Gyða Þórhallsdóttir, ein af Áttunum, félagsskap fyrrverandi flugfreyja hjá Loftleiðum, en í þáttunum er rætt við fólk úr hinum ólíku geirum flugsins, bæði fyrrverandi og núverandi starfsmenn, en einnig fólk sem hefur flugið að áhugamáli.

Við kynnumst íslensku flugfélögunum og flugstarfsemi innanlands en einnig flugútrás landsmanna í gegnum tíðina, eins og flugnýlenduninni í Lúxemborg, en þar byggðu Íslendingar upp flugfélagið Cargolux.
„Það byrjar í raun sem verkefni frá Loftleiðum,“segir Brynjar Örn Sveinjónsson, yfirflugstjóri Cargolux.

„Þegar við tölum um íslenskt flugævintýri, þá er það í dag,” segir flugáhugamaðurinn Pétur P. Johnson, fyrrum ritstjóri tímaritsins Flugs,
Hér má sjá kynningarstiklu fyrir Flugþjóðina: