Enski boltinn

„Þriðji leikurinn sem við hendum frá okkur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sean Dyche ósáttur í leiknum í dag.
Sean Dyche ósáttur í leiknum í dag. Vísir/Getty

Sean Dyche knattspyrnustjóri Everton sagði eftir tapið gegn Bournemouth í dag að þetta væri þriðji leikurinn sem liðið henti frá sér á tímabilinu. Everton er enn án sigurs í deildinni eftir ótrúlegt tap í dag.

Everton tapaði sínum þriðja leik í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið beið lægri hlut gegn Bournemouth á heimavelli. Everton var 2-0 yfir þegar örskammt var eftir en Bournemouth skoraði þrjú mörk undir lok leiksins og tryggði sér 3-2 sigur.

Knattspyrnustjórinn Sean Dyche var vitaskuld svekktur eftir leik.

„Við gerðum svo margt rétt áður en þeir skoruðu fyrsta markið,“ en Bournemouth minnkaði muninn í 2-1 á 87. mínútu leiksins.

„Ég held að þeir hafi átt eitt skot á rammann áður en þeir skoruðu og leikurinn hefði átt að vera búinn. Við fengum á okkur eitt mark og köstuðum þessu frá okkur. Ég get ekki náð utan um þetta akkúrat núna,“ sagði Dyche í samtali við BBC eftir leik.

„Þeir héldu áfram að henda boltanum fram og voru verðlaunaðir fyrir það í lokin. Í ensku úrvalsdeildinni þarftu að spila leikinn allt til enda og við gerðum það ekki. Þeir sóttu og settu boltann inn í teiginn og við náðum ekki að bregðast við því. Þetta var einfalt en við hentum þessu frá okkur. Þetta er þriðji leikurinn sem við hendum frá okkur á þessu tímabili.

Everton hefur fengið á sig 10 mörk í þremur leikjum á tímabilinu og er enn án stiga. Dyche sagði menn þurfa að líta í eigin barm.

„Þú þarft alltaf að geta klárað leiki og sérstaklega á þessu stigi fótboltans. Allir litu á einhverja aðra til að taka á hlutunum og þá erum við í vandræðum. Maður gat séð líkamstjáninguna breytast. Við erum með reynsluna til að klára svona leiki en í dag gerðum við það ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×