Fótbolti

Birnir skoraði í enn einu tapi Halmstad

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birnir Snær skoraði mark Halmstad í dag.
Birnir Snær skoraði mark Halmstad í dag. @HalmstadsBK

Gísli Eyjólfsson og Birnir Snær Ingason voru báðir í byrjunarliði Halmstad sem tapaði gegn Mjällby á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Halmstad er í harðri fallbaráttu í Svíþjóð en liðið hafði tapað fjórum af síðustu fimm leikjum fyrir leikinn gegn Mjällby í dag.

Eins og áður segir voru þeir Gísli Eyjólfsson og Birnir Snær Ingason báðir í byrjunarliði Halmstad en þeir eru á sínu fyrsta tímabili með félaginu. 

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Íslendingaliðið því heimamenn í Mjällby voru komnir í 2-0 eftir fjórtán mínútna leik. Birnir Snær náði að minnka muninn fyrir Halmstad á 28. mínútu en heimamenn náðu tveggja marka forystu á ný skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Gestirnir náðu ekki að minnka muninn í síðari hálfleik. Gísli og Birnir Snær voru báðir teknir af velli og að lokum var það heimalið Mjällby sem fagnaði 3-1 sigri.

Halmstad er í fjórða neðsta sæti sænsku deildarinnar eftir tapið. Liðið er með 21 stig og er stigi á undan Värnamo og þremur stigum á undan Västerås og Kalmar. Tvö neðstu liðin falla niður í næstefstu deild og þriðja neðsta liðið tekur þátt í umspili til að halda sæti sínu í Allsvenskan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×