Íslenski boltinn

„1-0 tap er ekki sann­gjörn niður­staða“

Einar Kárason skrifar
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, var að vonum ósáttur eftir tap liðsins gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna í kvöld.

„Mér finnst þessi úrslit ekki gefa rétta mynd af leiknum. 1-0 tap er ekki sanngjörn niðurstaða.“

„Það er nú þannig í þessum bolta að fyrsta mark skiptir gríðarlega miklu máli. Við skorum löglegt mark í fyrri hálfleik. Það er tekið af okkur og það hjálpar okkur svo sannarlega ekki. Það er algjör óþarfi að aðstoða Þór/KA í þessu, að taka af okkur löglegt mark,“ sagði Guðni en Snædís Jörundsdóttir skoraði mark sem dæmt var af.

Guðni hrósaði Söndru Maríu Jessen sem skoraði sigurmark Akureyringa.

„Í seinni hálfleik fengum við mjög góða stöðu. Snædís (María Jörundsdóttir) klikkar á því færi en gerði vel fram að því. Svo fáum við á okkur mark eftir slæm mistök í öftustu línu. Þar er gæða leikmaður eins og Sandra María sem nýtir sér það og gerir gott mark.“

Vindurinn hafði áhrif á leikinn í dag en Guðni var nokkuð ánægður með leik sinna kvenna þrátt fyrir tapið.

„Við náðum að halda vel í boltann og eiginlega alltaf að spila okkur út úr fyrstu pressu. Úr öftustu línu upp í miðju náðum við aftur og aftur. Eiginlega allan leikinn og það er eitthvað sem við höfum verið að vinna að síðustu í dag. Það eru svo margir jákvæðir punktar sem við tökum úr þessum leik. Það er mikill vindur og hann hafði áhrif en samt náðum við að spila okkur í gegn.“

FH er í 5. sæti efri hlutans og eftir tapið í dag er liðið átta stigum á eftir Þór/KA sem situr í bronssætinu.

„Við erum sátt með sumarið. Við erum ánægð með sumarið í heild sinni. Eins og alltaf, upp og niður en miklu meira upp heldur en niður. Við erum á góðum stað í dag og notum þessa leiki í efri hlutanum núna til að fá svör við allskonar spurningum sem við höfum. Þetta var einn liður í því og við fengum svör við allskonar vangaveltum í dag. Við höldum áfram að spyrja spurninga og fáum svör í næstu leikjum. Við nýtum þetta í að undirbúa næsta ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×