Fótbolti

Osim­hen í frysti­klefanum hjá Conte og Luka­ku kominn með númerið hans

Smári Jökull Jónsson skrifar
Victor Osimhen er ekki hátt skrifaður hjá knattspyrnustjóra Napoli Antonio Conte.
Victor Osimhen er ekki hátt skrifaður hjá knattspyrnustjóra Napoli Antonio Conte. Vísir/Getty

Nígeríski framherjinn Victor Osimhen er kominn út í kuldann hjá Napoli á Ítalíu. Hann er búinn að missa númerið sitt hjá félaginu og er ekki í plönum knattspyrnustjórans Antonio Conte.

Fastlega var búist við því að hinn nígeríski Victor Osimhen myndi skipta um félag áður en félagaskiptaglugginn í Evrópu lokaði á miðnætti síðastliðið föstudagskvöld. Hann hafði verið orðaður við stórlið á borð við Chelsea og Arsenal auk þess sem Al Ahli í Sádi Arabíu var áhugasamt um að tryggja sér þjónustu hans.

Ekkert varð hins vegar af félagaskiptunum. Hann er því enn leikmaður Napoli á Ítalíu en Osimhen hefur skorað 65 mörk í 108 leikjum fyrir félagið og var lykilmaður þegar liðið varð Ítalíumeistari tímabilið 2022-23. Hann var keyptur til félagsins á 70 milljónir evra fyrir fjórum árum síðan.

Nú er staðan hins vegar önnur. Osimhen er kominn í frystiklefann hjá Napoli og var ekki skráður á leikmannalistann sem félagið skilaði inn fyrir tímabilið. Knattspyrnustjórinn Antonio Conte virðist engin not fyrir hann hafa og lét meðal annars sinn gamla félaga Romelu Lukaku fá gamla númer Osimhen. Lítur nú út fyrir það að Osimhen muni ekki spila neinn fótbolta fram að áramótum hið minnsta. 

Ekki er þó útilokað að hann færi sig um set til Sádi Arabíu en félagaskiptaglugginn þar í landi lokar á mánudag. Al Ahli er hins vegar búið að styrkja framlínuna hjá sér en liðið fékk Ivan Toney til liðs við sig frá Brentford rétt áður en glugginn lokaði. Líkurnar á að Osimhen endi þar hafa því minnkað verulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×