Hverfist allt um lokamarkmiðið Hjörtur J. Guðmundsson skrifar 2. september 2024 07:31 Mjög langur vegur er frá því að Evrópusambandið snúist einungis um markaðs- og gjaldmiðilsmál líkt og gjarnan mætti halda miðað við málflutning ófárra talsmanna inngöngu Íslands í sambandið. Jafnvel mætti stundum ætla að Evrópusambandið væri ekki annað en gjaldmiðill miðað við þann málflutning. Raunin er hins vegar sú að evran og flest eða allt annað sem viðkemur sambandinu er fyrst og fremst liður í lokamarkmiði samrunaþróunarinnar innan þess og forvera þess frá upphafi. Að til verði að lokum evrópskt sambandsríki. Til að mynda kom fram í Schuman-ávarpinu 1950, sem markaði upphaf samrunaþróunarinnar, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki (e. the federation of Europe). Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref í þá átt. Nú síðast var meðal annars lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands. Lykilatriðið er vitanlega orðið áframhaldandi sem vísar til þess að þessi þróun hefur verið í gangi áratugum saman. Hreinlega hefur verið leitun að pólitískum forystumönnum í ríkjum Evrópusambandsins og stofnunum þess á undanförnum áratugum, og ekki sízt hin síðari ár, sem ekki hafa lýst yfir stuðningi við lokamarkmiðið um eitt ríki. Þar á meðal allir forsetar framkvæmdastjórnar þess undanfarna áratugi og þar með talinn núverandi forseti hennar, Ursula von der Leyen. Samhliða því hefur Evrópusambandið jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis og er fyrir vikið þegar orðið federalískt að stóru leyti. Þar á meðal helztu stofnanir þess. Hugsaður sem innanlandsmarkaður Til að mynda hefur innri markaður Evrópusambandsins alltaf verið hugsaður sem innanlandsmarkaður hins fyrirhugaða sambandsríkis og evran gjaldmiðill þess. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað snýst sambandið ekki um frjáls milliríkjaviðskipti enda í grunninn tollabandalag en slík bandalög snúast fyrst og fremst um það að vernda framleiðslu innan þeirra fyrir utanaðkomandi samkeppni og eru þannig í eðli sínu andstæðan við frjáls viðskipti á milli ríkja. Hins vegar eru jú allajafna ekki tollar í viðskiptum innan sama ríkisins. Meint neytendavernd innan Evrópusambandsins snýst gjarnan fyrst og fremst um að vernda hagsmuni innlendra framleiðenda en ekki almennings. Hins vegar hljómar vitanlega mun betur að bera fyrir sig neytendavernd. Þannig kveður regluverk sambandsins um viðskipti við ríki utan þess iðulega á um kostnaðarsamar kröfur til innflutts varnings sem hefur hliðstæð áhrif og tollar enda hafa tæknilegar viðskiptahindranir í formi regluverks að miklu leyti tekið við af þeim í dag sem helzta hindrunin í milliríkjaviðskiptum. Til að mynda er velþekkt að ákveðnar innfluttar vörur séu bannaðar innan Evrópusambandsins vegna ákveðins innihaldsefnis á sama tíma og aðrar vörur sem innihalda nákvæmlega sama efni eru leyfðar. Skýringin á þessu er allajafna sú að bannaða varan er í beinni samkeppni við framleiðslu innan sambandsins en hin ekki. Hins vegar er það vitanlega ekki gefið upp sem opinber ástæða heldur sagt að með þessu sé verið að standa vörð um hagsmuni neytenda. Innihaldsefnið er auðvitað stórhættulegt í annarri vörunni en ekki hinni. Stórt skref í átt að lokamarkmiðinu Hvað evruna varðar hefur margoft verið bent á það að hefði hagfræði ráðið för hefði hún einungis náð til þeirra ríkja Evrópusambandsins sem ættu næga efnahagslega samleið til þess að deila einum og sama gjaldmiðlinum. Ríki eins og Þýzkaland, Frakkland og Benelúx-löndin þar sem hagsveiflan er til að mynda svipuð. Mögulega hefði evran reyndar aldrei orðið til ef tekið hefði verið mið af hagfræðinni. Hins vegar réði pólitík ferðinni. Það er að segja sú pólitík að evran væri stórt skref í áttina að lokamarkmiði samrunans. Margoft hefur að sama skapi verið bent á þá staðreynd að ekkert myntbandalag í sögunni hafi lifað af til lengri tíma án þess að vera tengt við eitt ríki. Innan evrusvæðisins í dag er ein peningastefna en tuttugu oft á tíðum afar ólíkar efnahagsstefnur sem er ekki sérlega sjálfbær staða. Ófáir virtir hagfræðingar hafa lýst þeirri skoðun sinni að eina leiðin til þess að evran eigi einhverja möguleika til framtíðar sé að Evrópusambandið verði endanlega að einu ríki. Án þess sé einungis tímaspursmál hvenær evrusvæðið liðist í sundur. Til dæmis hefur evrusvæðið aldrei uppfyllt þau fjögur skilyrði sem lögð eru til grundvallar kenningar kanadíska hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Roberts Mundell um hið hagkvæma myntsvæði sem það er þó sagt reist á. Skilyrðin eru hliðstæð hagsveifla, mikill hreyfanleiki vinnuafls, sveigjanleg laun og sameiginlegt kerfi til þess að flytja fé þangað sem þess er þörf. Yfirleitt í formi skattheimtu. Mundell hefur sagt nægjanlegt að uppfylla einungis eitt af skilyrðunum en evrusvæðið hefur til þessa ekki einu sinni gert það. Fjölmörg einkenni ríkis þegar í höfn Margt af því sem talið er Evrópusambandinu til tekna og er gjarnan jákvætt í eðli sínu er í raun liður í því að vinna að framgangi lokamarksmiðsins. Ekki sízt til þess að tryggja stuðning við sambandið og um leið lokamarkmiðið. Til að mynda raunveruleg neytendavernd, nemaskipti, sjúkrakort og símareiki. Hæglega væri hægt að semja um slíkt til að mynda sem hluta af víðtækum fríverzlunarsamningum. Til þess þyrfti ekki umfangsmikið, yfirþjóðlegt og miðstýrt skriffinskubákn sem stefnir að því leynt og ljóst að verða að einu ríki. Mörg einkenni ríkis eru þegar í höfn í samrunaþróuninni innan Evrópusambandsins. Þar á meðal ytri landamæri, ríkisborgararéttur, hæstiréttur, seðlabanki, gjaldmiðill, ökuskírteini, utanríkisþjónusta, alríkislög, sambandsþing sem og ígildi ríkisstjórnar. Það er framkvæmdastjórn sambandsins, handhafi framkvæmdavalds þess. Meira að segja býr það yfir eigin herráði. Evrópusambandið er þegar orðið miðstýrðara en Sviss og jafnvel að ýmsu leyti Bandaríkin. Til dæmis þegar kemur að samspili löggjafar sambandsins og ríkja þess. Hluti af þróun Evrópusambandsins í átt að lokamarkmiðinu um eitt ríki hefur verið aukin áherzla á það að vægi ríkja innan þess fari fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Líkt og fjöldi þingmanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fer eftir íbúafjölda ríkja Bandaríkjanna. Milliríkjasamstarf byggist á hinn bóginn allajafna á því að ríki standi jafnfætis í þeim efnum; eitt ríki, eitt atkvæði. Væri Ísland í sambandinu yrði til að mynda vægi landsins í ráðherraráði þess á við það að hafa einungis 5% af þingmanni á Alþingi. Samvinna eitt en samruni allt annað Vegna aðildar Íslands að EES-samningnum hefur samrunaþróun Evrópusambandsins einnig áhrif hér á landi enda fylgir samningurinn henni á því sviði sem hann nær til. Það er innri markaði sambandsins sem síðan er sífellt að teygla sig til fleiri málaflokka með tilheyrandi auknu íþyngjandi regluverki og kröfum um framsal valds yfir íslenzkum málum. Hemillinn sem Ísland ætti að hafa í þeim efnum, svonefnt neitunarvald, virkar hins vegar ekki. Fyrst og fremst vegna þess að íslenzk stjórnvöld leggja ekki í það að beita honum. Hlutdeild Evrópusambandsins í landsframleiðslu á heimsvísu hefur dregizt jafnt og þétt saman á liðnum árum og var á síðasta ári einungis um 14,5% en var í upphafi aldarinnar rúmlega 20% þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að snúa þeirri þróun við. Fyrir utan annað kemur því vart á óvart að einu ríkin sem sækist eftir inngöngu í Evrópusambandið séu í Austur-Evrópu og þá ekki sízt af ótta við Rússland í ljósi landfræðilegrar legu þeirra þó sambandið hafi raunar sýnt að því sé ekki treystandi í öryggis- og varnarmálum. Hið sama á við eftirspurnina eftir EES-samningnum. Engin röð ríkja er þannig eftir því að gerast aðili að honum eða semja um hliðstæðan samning við Evrópusambandið. Þvert á móti hafa bæði Bretland og Sviss ítrekað afþakkað slíkt. Þess í stað kjósa ríki heimsins að semja um víðtæka fríverzlunarsamninga varðandi viðskipti sín á milli sem fela ekki í sér vaxandi kröfur um einhliða upptöku íþyngjandi regluverks og framsal valds. Samvinna er jú eitt en samruni allt annað. Þetta er einfaldlega sannleikurinn um sambandið. Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál). Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hjörtur J. Guðmundsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Skoðun Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmalaust mál Sigursteinn Másson skrifar Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Tækifæri gervigreindar í menntun Páll Ásgeir Torfason skrifar Skoðun Sjálfstæð hugsun á tímum gervigreindar Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson skrifar Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson skrifar Sjá meira
Mjög langur vegur er frá því að Evrópusambandið snúist einungis um markaðs- og gjaldmiðilsmál líkt og gjarnan mætti halda miðað við málflutning ófárra talsmanna inngöngu Íslands í sambandið. Jafnvel mætti stundum ætla að Evrópusambandið væri ekki annað en gjaldmiðill miðað við þann málflutning. Raunin er hins vegar sú að evran og flest eða allt annað sem viðkemur sambandinu er fyrst og fremst liður í lokamarkmiði samrunaþróunarinnar innan þess og forvera þess frá upphafi. Að til verði að lokum evrópskt sambandsríki. Til að mynda kom fram í Schuman-ávarpinu 1950, sem markaði upphaf samrunaþróunarinnar, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki (e. the federation of Europe). Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref í þá átt. Nú síðast var meðal annars lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands. Lykilatriðið er vitanlega orðið áframhaldandi sem vísar til þess að þessi þróun hefur verið í gangi áratugum saman. Hreinlega hefur verið leitun að pólitískum forystumönnum í ríkjum Evrópusambandsins og stofnunum þess á undanförnum áratugum, og ekki sízt hin síðari ár, sem ekki hafa lýst yfir stuðningi við lokamarkmiðið um eitt ríki. Þar á meðal allir forsetar framkvæmdastjórnar þess undanfarna áratugi og þar með talinn núverandi forseti hennar, Ursula von der Leyen. Samhliða því hefur Evrópusambandið jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis og er fyrir vikið þegar orðið federalískt að stóru leyti. Þar á meðal helztu stofnanir þess. Hugsaður sem innanlandsmarkaður Til að mynda hefur innri markaður Evrópusambandsins alltaf verið hugsaður sem innanlandsmarkaður hins fyrirhugaða sambandsríkis og evran gjaldmiðill þess. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað snýst sambandið ekki um frjáls milliríkjaviðskipti enda í grunninn tollabandalag en slík bandalög snúast fyrst og fremst um það að vernda framleiðslu innan þeirra fyrir utanaðkomandi samkeppni og eru þannig í eðli sínu andstæðan við frjáls viðskipti á milli ríkja. Hins vegar eru jú allajafna ekki tollar í viðskiptum innan sama ríkisins. Meint neytendavernd innan Evrópusambandsins snýst gjarnan fyrst og fremst um að vernda hagsmuni innlendra framleiðenda en ekki almennings. Hins vegar hljómar vitanlega mun betur að bera fyrir sig neytendavernd. Þannig kveður regluverk sambandsins um viðskipti við ríki utan þess iðulega á um kostnaðarsamar kröfur til innflutts varnings sem hefur hliðstæð áhrif og tollar enda hafa tæknilegar viðskiptahindranir í formi regluverks að miklu leyti tekið við af þeim í dag sem helzta hindrunin í milliríkjaviðskiptum. Til að mynda er velþekkt að ákveðnar innfluttar vörur séu bannaðar innan Evrópusambandsins vegna ákveðins innihaldsefnis á sama tíma og aðrar vörur sem innihalda nákvæmlega sama efni eru leyfðar. Skýringin á þessu er allajafna sú að bannaða varan er í beinni samkeppni við framleiðslu innan sambandsins en hin ekki. Hins vegar er það vitanlega ekki gefið upp sem opinber ástæða heldur sagt að með þessu sé verið að standa vörð um hagsmuni neytenda. Innihaldsefnið er auðvitað stórhættulegt í annarri vörunni en ekki hinni. Stórt skref í átt að lokamarkmiðinu Hvað evruna varðar hefur margoft verið bent á það að hefði hagfræði ráðið för hefði hún einungis náð til þeirra ríkja Evrópusambandsins sem ættu næga efnahagslega samleið til þess að deila einum og sama gjaldmiðlinum. Ríki eins og Þýzkaland, Frakkland og Benelúx-löndin þar sem hagsveiflan er til að mynda svipuð. Mögulega hefði evran reyndar aldrei orðið til ef tekið hefði verið mið af hagfræðinni. Hins vegar réði pólitík ferðinni. Það er að segja sú pólitík að evran væri stórt skref í áttina að lokamarkmiði samrunans. Margoft hefur að sama skapi verið bent á þá staðreynd að ekkert myntbandalag í sögunni hafi lifað af til lengri tíma án þess að vera tengt við eitt ríki. Innan evrusvæðisins í dag er ein peningastefna en tuttugu oft á tíðum afar ólíkar efnahagsstefnur sem er ekki sérlega sjálfbær staða. Ófáir virtir hagfræðingar hafa lýst þeirri skoðun sinni að eina leiðin til þess að evran eigi einhverja möguleika til framtíðar sé að Evrópusambandið verði endanlega að einu ríki. Án þess sé einungis tímaspursmál hvenær evrusvæðið liðist í sundur. Til dæmis hefur evrusvæðið aldrei uppfyllt þau fjögur skilyrði sem lögð eru til grundvallar kenningar kanadíska hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Roberts Mundell um hið hagkvæma myntsvæði sem það er þó sagt reist á. Skilyrðin eru hliðstæð hagsveifla, mikill hreyfanleiki vinnuafls, sveigjanleg laun og sameiginlegt kerfi til þess að flytja fé þangað sem þess er þörf. Yfirleitt í formi skattheimtu. Mundell hefur sagt nægjanlegt að uppfylla einungis eitt af skilyrðunum en evrusvæðið hefur til þessa ekki einu sinni gert það. Fjölmörg einkenni ríkis þegar í höfn Margt af því sem talið er Evrópusambandinu til tekna og er gjarnan jákvætt í eðli sínu er í raun liður í því að vinna að framgangi lokamarksmiðsins. Ekki sízt til þess að tryggja stuðning við sambandið og um leið lokamarkmiðið. Til að mynda raunveruleg neytendavernd, nemaskipti, sjúkrakort og símareiki. Hæglega væri hægt að semja um slíkt til að mynda sem hluta af víðtækum fríverzlunarsamningum. Til þess þyrfti ekki umfangsmikið, yfirþjóðlegt og miðstýrt skriffinskubákn sem stefnir að því leynt og ljóst að verða að einu ríki. Mörg einkenni ríkis eru þegar í höfn í samrunaþróuninni innan Evrópusambandsins. Þar á meðal ytri landamæri, ríkisborgararéttur, hæstiréttur, seðlabanki, gjaldmiðill, ökuskírteini, utanríkisþjónusta, alríkislög, sambandsþing sem og ígildi ríkisstjórnar. Það er framkvæmdastjórn sambandsins, handhafi framkvæmdavalds þess. Meira að segja býr það yfir eigin herráði. Evrópusambandið er þegar orðið miðstýrðara en Sviss og jafnvel að ýmsu leyti Bandaríkin. Til dæmis þegar kemur að samspili löggjafar sambandsins og ríkja þess. Hluti af þróun Evrópusambandsins í átt að lokamarkmiðinu um eitt ríki hefur verið aukin áherzla á það að vægi ríkja innan þess fari fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Líkt og fjöldi þingmanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fer eftir íbúafjölda ríkja Bandaríkjanna. Milliríkjasamstarf byggist á hinn bóginn allajafna á því að ríki standi jafnfætis í þeim efnum; eitt ríki, eitt atkvæði. Væri Ísland í sambandinu yrði til að mynda vægi landsins í ráðherraráði þess á við það að hafa einungis 5% af þingmanni á Alþingi. Samvinna eitt en samruni allt annað Vegna aðildar Íslands að EES-samningnum hefur samrunaþróun Evrópusambandsins einnig áhrif hér á landi enda fylgir samningurinn henni á því sviði sem hann nær til. Það er innri markaði sambandsins sem síðan er sífellt að teygla sig til fleiri málaflokka með tilheyrandi auknu íþyngjandi regluverki og kröfum um framsal valds yfir íslenzkum málum. Hemillinn sem Ísland ætti að hafa í þeim efnum, svonefnt neitunarvald, virkar hins vegar ekki. Fyrst og fremst vegna þess að íslenzk stjórnvöld leggja ekki í það að beita honum. Hlutdeild Evrópusambandsins í landsframleiðslu á heimsvísu hefur dregizt jafnt og þétt saman á liðnum árum og var á síðasta ári einungis um 14,5% en var í upphafi aldarinnar rúmlega 20% þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að snúa þeirri þróun við. Fyrir utan annað kemur því vart á óvart að einu ríkin sem sækist eftir inngöngu í Evrópusambandið séu í Austur-Evrópu og þá ekki sízt af ótta við Rússland í ljósi landfræðilegrar legu þeirra þó sambandið hafi raunar sýnt að því sé ekki treystandi í öryggis- og varnarmálum. Hið sama á við eftirspurnina eftir EES-samningnum. Engin röð ríkja er þannig eftir því að gerast aðili að honum eða semja um hliðstæðan samning við Evrópusambandið. Þvert á móti hafa bæði Bretland og Sviss ítrekað afþakkað slíkt. Þess í stað kjósa ríki heimsins að semja um víðtæka fríverzlunarsamninga varðandi viðskipti sín á milli sem fela ekki í sér vaxandi kröfur um einhliða upptöku íþyngjandi regluverks og framsal valds. Samvinna er jú eitt en samruni allt annað. Þetta er einfaldlega sannleikurinn um sambandið. Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar
Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar
Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun