Erlent

Hringirnir á­fram á Eiffel og sitt sýnist hverjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Borgarstjórinn vill hringina áfram á turninum.
Borgarstjórinn vill hringina áfram á turninum. Getty/Tullio M. Puglia

Ágreiningur er kominn upp í Frakklandi eftir að Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, sagðist hafa tekið þá ákvörðun að hafa Ólympíuhringina áfram á Eiffel-turninum.

Hringirnir fimm, merki Ólympíuleikanna, eru 15 metra háir, 29 metra langir og vega 30 tonn. Þeim var komið fyrir á turninum fyrir setningu Ólympíuleikanna 26. júlí síðastliðinn og til stóð að taka þá niður eftir að Ólympíuleikum fatlaðra lýkur 8. september næstkomandi.

Hidalgo hefur nú tilkynnt að hún hyggist halda hringjunum en mögulega skipta þeim út fyrir léttari útgáfur í fyllingu tímans. Ólympíuleikarnir hafi endurnýjað ást Frakka á höfuðborg sinni og hún vildi halda í stemninguna.

Ákvörðunin hefur bæði verið lofuð og gagnrýnd.

„Eiffel-turninn er afara fallegur og hringirnir bæta við lit. Þetta er mjög huggulegt að sjá,“ hefur France Bleu eftir ungri konu að nafni Soléne. „Þetta er sögulegur minnisvarði, af hverju að gera lítið úr honum með hringjum,“ segir maður að nafni Manon.

Aðrir segja Hidalgo hafa átt að bera ákvörðunina undir borgarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×